Marinerað lamb með bláberjum

Lambafile í bláberjamarineringu og með kaldri bláberjasósu

  • Servings: 4 - 6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Haustið er tími bláberja og eitt af því sem mér finnst gott að eiga í frysti eru bláber  (Besta leiðin til að frysta bláber).  Þau eru góð bæði í mat og bakstur.  Lambakjöt er í miklu uppáhaldi og finnst mér frábært að nota bláberin bæði í marineringuna og í sósuna.  Best er ef kjötið nær að marinerast í bláberjunum  í 2 daga í kæli. Þennan rétt er upplagt að bera fram þegar bláberjauppskeran er í hámarki og einnig góð leið til að fagna komu haustins.

Forvinna

Kjötið látið marinerast í nokkra daga.  Sósuna má búa til eitthvað áður.

Hráefni

Marinerað lambafile

  • 1 kg lambafile
  • Rúmlega 2 – 3 dl fersk eða frosin íslensk bláber
  • Rúmlega 1 dl ólífuolía
  • 1 – 2 msk ferskt rósmarín (eða 2 – 3 tsk þurrkað)
  • 1 tsk græn piparkorn – söxuð
  • 1 msk sítrónusafi
  • Rúmlega 4 tsk ferskt engifer – rifið fínt
  • 8 hvítlauksrif – pressuð eða fínsöxuð
  • 2 tsk sykur
  • ½ – 1 tsk lakkrísduft (má sleppa)
  • 4 – 5 msk fersk salvía (2 – 3 tsk þurrkuð)
  • Saltflögur
  • Mulinn pipar

 

Köld bláberjasósa

  • 1 dl fersk eða frosin íslensk bláber
  • 1½ dl grísk jógúrt
  • Börkur af ¼ – ½ lífrænni sítrónu – rifinn fínt
  • 2 msk fersk mynta – söxuð
  • 1 msk hunang

Verklýsing

Marinerað lambafile

  1. Öllu hráefni blandað saman í skál.  Ágætt að kremja bláberin aðeins
  2. Kjötið sett út í blönduna og látið marinerast í a.m.k. nokkrar klukkustundir við stofuhita – best að láta kjötið marinerast í lokuðu boxi í 1 – 3 daga í kæli.  Gott að snúa kjötinu við einu sinni eða tvisvar. ATH.  mjög mikilvægt er að taka kjötið úr kæli töluvert áður en það er grillað svo að það nái stofuhita
  3. Steiking: Kjötið sett á heitt grillið og steikt/grillað í u.þ.b. 2- 3 mínútur á hvorri hlið (fer svolítið eftir þykkt bitanna).  Eins og alltaf þá er það persónubundið hversu rautt kjötið má vera en mér finnst lykilatriði að það sé rautt í miðjunni.  Kjötið verður mjög dökkt þegar það liggur lengi í bláberjamarineringunni og lítur því út fyrir að vera brennt þegar það er steikt.   Kjötið látið jafna sig aðeins eftir steikinguna

  4. Framsetning:  Ég hef vanist því að kjöt eins og þetta sé skorið í þunnar sneiðar áður en það er sett á diskinn.  Þannig finnst mér kötið bæði vera lystugra, fallegra og betra en það er auðvitað smekksatriði

Köld bláberjasósa

  1. Allt hráefni sett í blandara

Meðlæti 

T.d. piparrótarsósa, kúskús eins og ferskt og gott kúskús með granateplum eða ofnsteiktar kartöflur.

Lambafile sett í marineringu

Lambafile eftir 2 daga í marineringu

 

Sósa í vinnslu

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*