Kjúklingur með indversku ívafi af allra bestu gerð
Uppruni
Þessa uppskrift fékk ég hjá Elsu Bínu en hún hefur fengið þennan rétt í gönguferðunum sínum. Ég prófaði hann og verð að segja að hann er æði, eiginlega með betri kjúklingaréttum með indversku ívafi gerður í heimahúsi. Ekki spillir græna kókossósan fyrir sem er borin fram með. Þar sem mér finnst alveg sérstaklega þægilegt að elda kjúkling í pottunum mínum þá nota ég þá við þennan rétt. Með þessu hafði ég súrdeigsnaanbrauð og þau gerðu góðan rétt enn þá betri. Það sem er gott við þennan rétt er að hann má forvinna og því lítið eftir annað en að hita hann. Ég tók hann með í gönguferð og ekki var hann síðri eftir nokkra daga. Ef þú ert fyrir indverskan mat … þá mæli ég með þessum.
Grænmetisútgáfa: Það er lítið mál að skipta út kjúklingi fyrir blómkál. Þá er ágætt að skera það í minni bita og gufusjóða (eða sjóða í litlu vatni) í 3 – 6 mínútur (háð stærð). Bitarnir settir í pott/fat, kryddaðir og í ofninn með lokinu á í 10 – 15 mínútur. Sósan sett yfir og rétturinn fer aftur í ofninn í 15 mínútur en þá án loks.
Forvinnsla
Hægt að forsteikja kjúllann í potti (30 mínútur) og útbúa sósuna. Þá er bara eftir að hella henni yfir og hita kjúklinginn í 15 mínútur. Gott að gera kókossósuna daginn áður eða fyrr um daginn.
Ath. stundum hef ég aðeins meira af kjúklingi en sama magn af sósu þar sem hún er vel í lögð hér.
Hráefni
- 8 úrbeinuð kjúklingalæri (1 bakki)
- ½ tsk chiliduft
- ¼ tsk kanill (duft)
- 1 tsk garam masala
- ¼ tsk kardimommur (malaðar)
Sósa
- 50 g möndlur – heilar flysjaðar, barðar í spað með kjöthamri eða hakkaðar
- 100 g smjör
- 1 tsk ferskt engifer – rifið
- 3 hvítlauksrif söxuð/pressuð
- 2 gulir laukar (skornir í tvennt og svo í þunnar sneiðar)
- 1 dós niðursoðnir tómatar t.d. stewed tomatoes eða tómatpassata (420 – 425 g)
- 100 – 150 ml hrein jógúrt/grísk jógúrt
- ½ pakki ferskt kóríander – saxað eða rifið
- U.þ.b. 1½ dl rjómi
- 1¼ tsk saltflögur
Kókossósa
- 50 g kókosmjöl
- 150 ml hrein jógúrt/grísk jógúrt
- ½ pakki ferskt kóríander – bæði lauf og stönglar
- 1 – 2 stk grænt chili (fræhreinsað – má alveg láta nokkur fræ fylgja með)
- ½ tsk sítrónusafi
- ½ tsk saltflögur
- 2 tsk sykur
Verklýsing
- Ofninn hitaður í 180°C (blásturstilling). Kjúklinglæri sett í Hönnupott (eða pott með loki sem þolir að fara í ofn) – chilidufti, kanil, garam masala og möluðum kardimommum dreift yfir kjötið. Lokið sett á og inn í ofn í 30 mínútur
- Ef ekki er búið að laga kókossósuna – er upplagt að gera það núna þar sem hún þarf að jafna sig
- Sósan fyrir kjúklinginn útbúin. Smjör brætt í djúpri pönnu eða potti og möndlurnar steiktar í smjörinu í smástund
- Rifið engifer, pressaður hvítlaukur og lauksneiðar sett út í – hrært saman
- Niðursoðnum tómötum/tómatpassata bætt við ásamt jógúrt/grískri jógúrt og rjóma. Blandað saman og hita náð upp – saltað
- Kjúklingurinn tekinn út og lokið tekið af. Sósunni hellt yfir. Sett aftur inn í 15 mínútur og þá án loks
- Rifnu kóríander stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram
Kókossósa
ATH. Sósan verður að bíða a.m.k. í 30 mínútur svo að kókosmjölið mýkist í vökvanum
- Öllu blandað saman nema kókosmjölinu – mér finnst best að mauka saman chili, kóriander, jógúrt/grískri jógúrt, sítrónusafa, salti og sykri í blandara. Stundum skil ég hluta af kórianderlaufunum eftir og saxa þau. Blöndunni er svo hellt saman við kókosmjöl ásamt söxuðum kórianderlaufum. Sósan látin jafna sig
Meðlæti:
Æði að bjóða súrdeigsnaanbrauð með og Mango chutney frá Cheetas er ómissandi með ásamt hrísgrjónum. Einnig gott að hafa saxaða tómata með.
Geymsla
Geymist ágætlega í kæli og má líka frysta.
Kjúklingur á leið í pottinn
Fyrir og eftir að hafa verið í ofninum í 30 mínútur
Möndlur hakkaðar …
Laukur skorinn í þunnar sneiðar
… möndlur hitaðar í smjörinu, lauknum bætt við … og svo eftir að allt hefur verið sett í sósuna
Kókossósa í vinnslu
Blöndunni hellt yfir kókosmjölið…
Sósan tilbúin – hellt yfir kjúllann
Kjúllaréttur á leið í ofninn….
…eftir 15 mínútur í 180°C – þá er flott að strá fersku kóriander yfir
Stórveisla í vændum
Grænmetisútgáfa