Súperdúper góð súrdeigsnaanbrauð

Súrdeigsnaanbrauð - einfaldlega best

  • Servings: /Magn: 8 brauð
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þetta súrdeigsnaanbrauð er ótrúlega einfalt og gott.  Þegar ég vil hægja á hefingunni tek ég mjólk og jógúrt beint úr ísskápnum – sama gildir með súrdeigsgrunninn (hefing 6 – 9 klukkustundir).  Ef ég hef minni tíma þarf hráefnið að vera við stofuhita (en alls ekki of heitt – ekki hærra en 37°C) – þá er hefingartíminn styttri eða 3 – 4 klukkustundir.  Það má svo leika sér með mismunandi útfærslur en uppáhaldið mitt er að velta nýsteiktu brauðinu upp úr kóksmjöli og möndluflögum.  Þessi naanbrauð eru einfaldlega best.

Hráefni

  • 240 g súrdeigsgrunnur
  • 125 g mjólk – við stofuhita
  • 60 g grísk jógúrt – við stofuhita
  • 290 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 6 g gróft salt
  • 5 msk brætt smjör (gott að pressa 1 – 2 hvítlauksrif og blanda saman við)
  • Kóriander – saxað
  • Blanda: kókosmjöl og möndluflögur.  Ef velta á brauðunum upp úr kókosmjöli og ristuðum möndluflögum er gott að blanda því saman og setja í skál

Verklýsing

  1. Súrdeigsgrunni, mjólk og grískri jógúrt blandað vel saman (best er að þau séu við stofuhita – ef kaldari þá hægir það á hefingu)
  2. Lyftidufti, hveiti og salti blandað saman við – hrært vel saman – má hnoða með annarri hendinni
  3. Klútur settur yfir skálina og látið hefast í 2 – 3 klukkustundir (jafnvel lengur) á stað þar sem ekki er trekkur.  Mér finnst best að setja deigið í lokað plastílát (þá er það minna viðkvæmt fyrir trekki)
  4. Deigið lagt á hveitistráð borð og hnoðað aðeins með höndunum – það á ekki að þurfa að bæta hveiti við
  5. Deiginu skipt í 8 hluta og kúlur mótaðar
  6. Panna hituð – hafa frekar háan hita
  7. Kúla flött út (með höndum eða kefli) – penslað með bræddu smjöri og sú hlið lögð á heita pönnuna – hin hliðin pensluð.  Það fer svolítið eftir hitanum hvað brauð er lengi að bakast en það ætti að taka 30 sek fyrir hvora hlið eða þegar kominn er fallegur litur.  Oft verða brauðin svolítið dökk þar sem þau eru bökuð á háum hita. Ath. brauðin má líka grilla en þá er betra að pensla um leið og þau koma af grillinu
  8. Brauðinu velt upp úr kókosblöndunni og síðan lagt í körfu með klút – gott að hylja brauðið með klútnum svo það haldist volgt
  9. Endurtekið þar til öll brauðin hafa verið bökuð. Fallegt að strá söxuðum kóriander yfir þau í lokin

 

Hugmyndir að ýmsum útfærslum:

  • Saxaður/pressaður hvítlaukur – steiktur í smjöri (2 -3 msk) á lágum hita (má ekki brenna) og blandað saman við deigið – saxaðri persilju stráð yfir eftir bakstur
  • Nokkrar rúsínur settar í deigið eða 2 – 3 saxaðar döðlur ásamt 20 g af kókosmjöli – söxuðum kóriander og kókosmjöli stráð yfir eftir bakstur
  • Þeir sem elska kanil geta stráð kanilsykri yfir brauðið eftir bakstur

 

Hráefni:

Þrjár mismunandi útgáfur af súrdeigsnaanbrauði í hefingu

…. naanbrauð með döðlum og kókosmjöli í vinnslu

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*