Grænt og vænt brokkolísalat
Uppruni
Hér kemur ein þægileg og góð uppskrift frá Valda tengdasyni mínum. Brokkolísalatið er hægt að hafa sem meðlæti eða bera fram eitt og sér. Lykillinn er að gufusjóða brokkolíið mjög stutt í saltvatni. Ég veit að þegar tíminn er mjög naumur hefur Valdi sleppt því að sjóða það en þá eru brokkólíbitarnir hafðir sérstaklega litlir. Það má líka gera sína eigin útfærslu … svona eftir því hvað er til hverju sinni. Þeir sem þurfa að bæta grænu gersemi á diskinn sinn ættu klárlega að gefa þessum rétti gaum.
Hráefni
- Eitt búnt brokkolí
- Fetaostur í olíu – bara velja þann sem þykir bestur
- Möndluflögur – allt í lagi að rista ríflega til að eiga fyrir annað
- Fersk basil – heil blöð eða saxa þau aðeins
- Gróft salt
Verklýsing
- Brokkolíhausinn tekinn í sundur. Vatn sett í pott (ekki of mikið) – best að gufusjóða brokkolíið í pasta- eða gufupotti svo að það liggi ekki í vatninu sjálfu (ef hann er ekki til má einnig hita vatn í potti og setja brokkolíið í sigti ofan í pottinn). Ég hef sett rúmlega botnfylli af vatni í pottinn og 3 – 4 tsk af grófu salti og hitað að suðu
- Brokkolíbitarnir settir ofan í þegar vatnið er farið að sjóða og bitarnir soðnir í 1 – 3 mínútur (fer eftir stærð þeirra). Ef brokkolíið er soðið of lengi tapar það fallega græna litnum sínum
- Brokkolið tekið upp úr og sett í skál – möndluflögur ristaðar snöggt á heitri pönnu
- Fetaostur og olían í krukkunni sett yfir ásamt möndluflögunum og fersku basil – blandað saman
- Hugmyndir: Það má t.d. setja furuhnetur í staðinn fyrir möndlur – ef ekki er til basil má sleppa því
Meðlæti: Gott með grillmatnum eins og t.d. grilluðum silungi með fetaosti.