Pottapizza…. með sósu og salati

Risa pizzusnúður - þegar ísskápurinn er fullur af engu

 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Áttu ýmislegt í ísskápnum sem þú þarft að losna við?  Hér kemur hugmynd … pottapizza. Nú er um að gera að nota hugmyndaflugið og nýta það sem liggur undir skemmdum í ísskápnum hverju sinni.  Allt valfrjálst…. það er ekki nauðsynlegt að skreyta með salati en það er mjög góð leið til að hreinsa úr grænmetisskúffunni …. saxa og rífa niður og skreyta svo með því. Sama með hvítlaukssósuna eða ef þú átt chilimæjó… ekki nauðsyn en samt alveg frábært með.  Hugmynd fyrir bbq fólkið … hægt að sprauta bbq sósu yfir snúðinn áður en hann fer inn í ofninn.

Hráefni

Deig

 • 2½ dl mjólk
 • 2 tsk þurrger
 • ¼ dl ólífuolía
 • 1 tsk salt
 •  1 egg (½ í deigið og ½ til að pensla snúðinn)
 • 6½ – 8 dl hveiti

Pizzusósa

 • 1 laukur eins og t.d. skarlottulaukur eða ½ gulur laukur
 • 1 – 2 stk hvítlauksrif
 • Smjör/olía
 • 1 dl niðursoðinn tómatur og/eða tómatar sem liggja undir skemmdum
 • ½ dl ólífuolía
 • 2 tsk krydd eins og pizzakrydd eða óreganó

Fylling – hugmyndir

 • 75 g salami/pepperóni eða skinka
 • Jalapeno
 • Klípur af rjómaosti
 • 1 – 2 döðlur og/eða ólífur
 • 125 g rifinn ostur
 • 50 g rifinn ostur eða parmesanostur – ofan á

Ofan á – sósa og salat

Salat – hugmyndir

 • Rauðkál
 • Fennel
 • Gulrætur
 • Salatblöð
 • Radísur
 • Gúrka
 • Tómatar
 • Hvítkál
 • Epli
 • Ferskar kryddjurtir

Hugmynd að sósu

Verklýsing

Deig

 1. Mjólk hituð í 37°C – Góð ráð við gerbakstur. Ég set helminginn af egginu saman við mjólkina
 2. Ger sett í skál ásamt volgri mjólkinni og blandað saman. Salti og olíu blandað saman við
 3. 6 dl hveiti bætt við í skálina og hnoðað saman
 4. Ef deigið er ennþá klístrað er aðeins af hveiti bætt við – hnoðað þar til deigið verður þannig að hægt sé að koma við það án þess að það klístrist við fingurna – passa samt að hafa það ekki of þurrt
 5. Látið hefast í u.þ.b. 35 mínútur með rakan klút yfir skálinni – látið lyftast tvöfalt

 

Fylling

 1. Það er hægt að fara tvær leiðir í sósugerðinni…. ef þú hefur tíma má láta laukinn og hvítlaukinn malla í potti ásamt olíu og smá smjöri.  Skella síðan nokkrum vel þroskuðum tómötum, tómatpasata og kryddi eins og pizzakryddi/oregano út í.  Ef þú hefur hins vegar lítinn tíma má alveg setja allt í blandara og mauka vel saman.  Hæfilegt magn fyrir risa pizzusnúð er u.þ.b. 2 dl
 2. Gott að skera það sem á að fara á pizzuna í litla bita og rífa niður ostinn (nota ostafganga og/eða rifinn pizzaost)

 

Samsetning

 1. Deigið flatt út ca. 30×40 cm
 2. Pizzuhræran smurð ofan á. Pepperóni/skinku o.fl. sem á að fara ofan á er dreift yfir ásamt osti
 3. Rúllað saman og stór snúður mótaður. Ágætt að setja hann á bökunarpappír og síðan undir dúk (viskustykki) þannig að hann hefist í 30 mínútur (má alveg stytta þann tíma)
 4. Ofninn hitaður í 250°C – Hönnupottur (eða sambærilegt sem þolir að fara í ofn) látinn hitna með ofninum
 5. Penslað með ½ hrærða egginu og rifnum osti dreift yfir
 6. Snúðurinn settur í pottinn og lokið lagt yfir. Bakað í 35 – 40 mínútur

 

Meðlæti

 1. Salat: Salat og grænmeti skorið í þunnar sneiðar eða rifið og sett í ískalt vatn.  Vatnið hellt frá og blandan þurrkuð
 2.  Sósa: Hvítlaukssósa, chilimæjó, hvítlauksolía, sítrónusósa eða bara það sem hverjum og einum finnst gott

 

Framsetning:  Pizzusnúðurinn tekinn úr pottinum og látinn kólna aðeins.  Það er ágætt að skera hann niður svo það sé auðveldara að ná sér í bita (allavega þegar hann er á hlaðborði).  Salatinu dreift í kringum snúðinn eða yfir hann og sósu hellt yfir eða höfð til hliðar.

 

Deig í vinnslu

Sósa í vinnslu

 

Pizzasnúður í vinnslu

Snúður á leið í ofninn – bakað með lokið á

Pizzasnúður á hlaðborðið

 

Það má alveg virkja yngstu kynslóðina í eldhúsinu ….

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*