Silungur með hnetusósu
Uppruni
Um daginn fór ég á veitingastað erlendis og pantaði mér lax með hnetusósu…. og mikið þótti mér hann góður. Nokkrum dögum síðar var ég enn að hugsa um réttinn góða og þá var fátt annað í stöðunni en að prófa sig áfram í tilraunaeldhúsinu. Hmmmm….. fyrsta hugsun er kannski að þetta passi nú ekki alveg saman en viti menn – þessi réttur er þrusugóður og höfðar bæði til ungra sem aldinna. Mæli klárlega með þessum rétti.
Forvinnsla
Upplagt að búa til sósuna daginn áður eða fyrr um daginn þar sem hún verður bara betri með því að standa aðeins. Fyrir þá sem vilja spreyta sig á púrrusnakkinu er fínt að búa það líka til aðeins áður.
Hráefni
Silungur og fleira
- 1400 g silungur/lax
- Salt og pipar
- Púrrulaukur/vorlaukur
- Skraut: T.d. ferskt kóriander, púrrulaukur/vorlaukur, límóna, tómatar, gúrka og muldar salthnetur
Sataysósa
- 5 – 6 hvítlauksrif
- 2 skarlottulaukar – skornir gróft
- 1 rauður chilipipar
- 1 tsk paprikuduft
- 1 tsk cumin
- 1 tsk kóríander
- 3½ msk sojasósa
- 1 msk fiskisósa (Fish Sauce – t.d. frá Thai Pride)
- Safi úr 2 límónum (lime)
- 2 msk hunang
- U.þ.b. 3 msk engifer – rifið
- 1 tómatur – vel þroskaður
- 200 g hnetusmjör – gróft
- 250 ml kókosrjómi
- Saltflögur og nýmalaður pipar
Verklýsing
Sataysósa
- Allt hráefni nema hnetusmjörið og kókosrjóminn sett í matvinnsluvél eða öflugan blandara og maukað smátt
- Hnetusmjörið sett í pott ásamt blöndunni og hitað – hrært saman (Tilvalið að skola blandarann/matvinnsluvélina með því að hella aðeins af vatni í hann og mixa stutt – hella því svo í pottinn)
- Þegar þetta hefur blandast vel saman er kókosrjóma bætt við og suðan látin koma upp – mikilvægt að hræra jafnóðum svo ekki brenni við botninn. Þegar suðan er komin upp dökknar sósan aðeins. Ágætt að láta sósuna standa og jafna sig í 1 – 2 klukkustundir eða í lokuðu íláti í kæli í 1 – 2 sólarhringa (ekki nauðsynlegt)
Silungur og fleira
- Silungur settur á álbakka eða pönnu sem þolir að fara á grillið. Gott að bera olíu á bakkann/pönnuna áður. Gott að setja salt og pipar á fiskinn
- Grillið látið ná góðum hita og silungurinn grillaður í 10 mínútur (ef notaður er lax þarf að hafa hann lengur þar sem bitinn er oftast þykkri)
- Púrrusnakk: Ofninn stilltur á 180 – 200°C (yfir- og undirhiti). Efri hlutinn af blöðunum af púrrulauknum (vorlauknum) er oftast notaður. Hann er penslaður með sataysósunni. Blöðin eru sett í ofnskúffu (bökunarpappír settur í botninn). Góður litur látinn koma á blöðin – frekar dökkt. Borið fram með fiskinum
Meðlæti: Mér og börnunum finnst voða gott að hafa ramen núðlur með þessum rétti. Hrísgrjón passa líka mjög vel með en svo er ómissandi að bera fram ferskt kóríander, gúrkubita og límónubáta sem hver og einn kreistir úr yfir réttinn. Ferskar púrru- eða vorlaukssneiðar og púrrusnakkið er einnig fallegt og gott með. Grillað grænmeti spillir svo ekki fyrir.
Sósa í vinnslu