Ein stór risasemla
Uppruni
Hér kemur uppskrift að uppáhalds bollunum mínum nema þessi er extra einflöld og upplagt að baka þegar margir eru um bitann. Núna erum við að tala um eina risastóra bollu bakaða í Hönnupotti og síðan fyllt af góðgæti. Það má leika sér með útfærsluna. Svíar nota mest marsipan og rjóma. En það er um að gera að nota hugmyndaflugið og setja það sem hverjum og einum finnst gott …. það er allt leyfilegt.
Hráefni
- 3 dl mjólk
- 100 g smjör
- 50 g pressuger eða 1 bréf þurrger (12 g)
- 1 egg – við stofuhita
- 1 dl sykur
- ½ tsk salt
- 9-10 dl hveiti
- ½ tsk hjartarsalt
- 1 tsk steytt kardimomma (má sleppa)
- Sigtaður flórsykur
- 1 egg – til að pensla bolluna
Fylling
- ½ dl möndlur
- U.þ.b. 200 g möndlumassi – rifinn gróft
- ½ l rjómi
Verklýsing
- Smjör brætt í potti
- Mjólk hellt út í og blandan látin vera ylvolg þ.e. 37°C
- Ger, sykur, kardimomma, salt og hjartarsalt sett í skál. Mjólkursmjörblöndunni bætt við
- 4 dl af hveitinu hrært saman við og eggið sett út í – hrært
- Afganginum af hveitinu bætt við og hnoðað
- Látið hefast í 10 mínútur
- Kúla mótuð úr deiginu og sett í skál eða á disk – klútur (ágætt að hafa hann rakan) ofan á og látið hefast í 1 klukkustund
- Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti) – potturinn látinn hitna með ofninum
- Bollan sett ofan í pottinn og hún pensluð. Lokið sett ofan á pottinn og bollan bökuð í 20 – 25 mínútur (mér finnst betra að hún sé aðeins minna bökuð en meira). Bollan tekin úr pottinum og látin kólna. Fyrir þá sem kjósa suðusúkkulaði má láta nokkra bita bráðna á bollunni – sjá mynd fyrir neðan
Fylling og samsetning
- Möndlurnar aðeins ristaðar á pönnu (ekki nauðsynlegt) – saxaðar og blandað saman við rifna möndlumassann
- Efsti hlutinn af bollunni skorinn af – betra að skera ofarlega þannig að neðri hlutinn haldi utan um rjómann – sjá mynd
- Taka aðeins af sætabrauðinu innan úr neðri helmingnum þannig að hola myndist. Marsipanið sett ofan í og síðan þeyttur rjómi. Að lokum er efri hlutanum tyllt á þann neðri (það getur verið gott að taka aðeins innan úr honum líka)
Gott að pensla áður en bollan fer í pottinn
Má setja súkkulaðibita á heita bolluna