Lambakjöt í bláberjamarineringu

Lambakjöt í bláberjamarineringu

 • Servings: 4 - 6
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Lambakjöt er í miklu uppáhaldi og finnst mér gaman að prófa mig áfram í marineringunni. Þessi bláberjamarinering er góð en mér finnst best ef kjötið hefur legið í henni í nokkra daga.  Á haustin er upplagt að tína svolítið af íslenskum bláberjum og frysta  (Besta leiðin til að frysta bláber ). Kjötið er gott með ýmsum tegundum af kartöflum eða kúskúsi.  Bláberjasósan er fersk og góð með og einnig heimagerða piparrótarsósan fyrir þá sem vilja meira bragð.  Heita sósan á betur við þegar kalt er í veðri. Þessa marineringu má gjarnan nota fyrir aðrar tegundir af lambakjöti eins og t.d. lambakonfektbita eða kindalundir.

Forvinna

Láta kjötið marinerast í nokkra daga.  Sósurnar má búa til eitthvað áður.

Hráefni

Marinerað innralæri

 • 1 kg lamba innralæri
 • Rúmlega 2 – 3 dl fersk eða frosin íslensk bláber
 • Rúmlega 1 dl ólífuolía
 • 1 – 2 msk ferskt rósmarín (eða 2 – 3 tsk þurrkað)
 • 1 tsk græn piparkorn – söxuð
 • 1 msk sítrónusafi
 • Rúmlega 4 tsk ferskt engifer – rifið fínt
 • 8 hvítlauksrif – pressuð eða fínsöxuð
 • 2 tsk hrásykur
 • ½ – 1 tsk lakkrísduft
 • 4 – 5 msk fersk salvía (2 – 3 tsk þurrkuð)
 • Saltflögur
 • Mulinn pipar

 

Köld sumarsósa

 • 1 dl fersk eða frosin íslensk bláber
 • 1½ dl grísk jógúrt
 • Börkur af ¼ – ½ lífrænni sítrónu – rifinn fínt
 • 2 msk fersk mynta – söxuð
 • 2 msk perlur eða u.þ.b. 20 g hvítt súkkulaði – má einnig nota hunang (u.þ.b. 1 msk)
 • 1 msk matreiðslurjómi (eða rjómi blandaður saman við brædda, hvíta súkkulaðið – sleppa ef notað er hunang)

Heit bláberjasósa – meira vetrarleg

 • 3 dl vatn
 • 1 msk kjötkraftur
 • 1 dl bláber
 • ½ dl púrtvín
 • 2 tsk porto-kryddblanda
 • 1 msk sósujafnari
 • Saltflögur
 • Nýmalaður pipar

Verklýsing

Marinerað innralæri

 1. Öllu hráefni blandað saman í skál.  Ágætt að kremja bláberin aðeins
 2. Kjötið sett út í blönduna og látið marinerast í nokkrar klukkustundir við stofuhita – best að láta kjötið marinerast í lokuðu boxi í nokkra daga í kæli.  Gott að snúa kjötinu við einu sinni eða tvisvar
 3. Steiking: Kjötið er fyrst steikt á grilli (eða pönnu) á tiltölulega háum hita þannig að það lokist.  Ath. kjötið verður mjög dökkt þegar það liggur lengi í bláberjamarineringunni og lítur því út fyrir að vera brennt þegar það er steikt.  Þegar búið er að loka því á öllum hliðum er kjöthitamæli stungið í mitt kjötið og hitinn lækkaður á grillinu eða það er sett í eldfast mót í 140° – 150°C heitan ofn. Þegar kjötið hefur náð u.þ.b. 62°C er það tekið úr ofninum/af grillinu og látið standa í 5-10 mínútur.  Mér finnst best að skera kjötið í þunnar sneiðar og bera það þannig fram

Köld sumarsósa

 1. Hvítt súkkulaði brætt t.d. í örbylgjuofni – rjóma blandað saman við
 2. Sýrðum rjóma og bláberjum blandað saman ásamt afgangi af hráefnunum. Ath. Ef notað er hunang er öllu hráefni blandað saman

Heit bláberjasósa – meira vetrarleg

 1. Vatn og kjötkraftur hitað í potti.  Bláberjum, púrtvíni, kryddblöndu og sósujafnara blandað saman við – suðan látin koma upp en þá þykknar sósan
 2. Saltað og piprað

Meðlæti 

T.d. piparrótarsósa, kúskús eins og ferskt og gott kúskús með granateplum eða ofnsteiktar kartöflur.

Lamba innralæri sett í marineringu

 

Heit bláberjasósa

 

Lambakonfekt í bláberjamarineringu

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*