Ljúffeng humarsúpa frá grunni

Ljúffeng humarsúpa frá grunni

 • Servings: fyrir 4-5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi uppskrift er heimatilbúin og er hún mjög vinsæl hjá heimilisfólkinu.  Það má nota hana hversdags en þá drýgi ég humarinn með því að hluta hann niður.  Þeir sem kjósa milda humarsúpa ættu að prófa þessa.

Ath. Súpan er þunn en mér hefur þótt það betra en hana má þykkja með meira af sósujafnara eða maizenamjöli. Stundum bý ég til kryddblöndu sem ég set bæði í humarsoðið og í súpuna sjálfa.  Hún kemur í staðin fyrir salt og pipar í súpunni sjálfri.

 

Forvinna

Humarsoðið og kryddblönduna er hægt að búa til áður og geyma í kæli.

Hráefni

Humarsoð

 • ½ laukur – saxaður
 • 3 – 4 selleristilkar – niðuskornir
 • 2 – 3 hvítlauksrif – smátt söxuð
 • Smjör
 • Skel af u.þ.b. 1 kg meðalstórum humrum. Stærð og fjöldi háð tilefni – fínt að kaupa t.d. skelbrot. Ath. best er að taka humarinn úr frysti daginn áður og láta hann þiðna í kæli.  Allt sem rennur af humrinum er sett í soðið
 • U.þ.b. 1 l vatn (vatnið á að ná yfir humarskeljarnar)
 • 1 tsk græn piparkorn (niðursoðin)
 • 1 tsk rautt curry paste
 • 1 tsk kryddblanda – má sleppa

 

Kryddblanda – má sleppa

 • 1 tsk rósapipar
 • 1 tsk ljós sinnepsfræ
 • ½ tsk dökk sinnepsfræ
 • 2 tsk hvílaukssalt
 • ½ tsk svartur pipar

 

Humarsúpa

 • Smjör
 • 14 -20 meðalstórir hreinsaðir humrar
 • 3 – 4 msk sósujafnari
 • Humarsoð (hér að ofan)
 • 3 – 4 dl hvítvín (má einnig nota freyðivín ef það er til afgangur)
 • 1 dl mjólk/matreiðslurjómi
 • 2 tsk kryddblanda eða salt
 • 1 tsk capers – saxaður
 • Nokkrir dropar tapasco
 • 1 – 2 msk tómatsósa t.d. heimagerð tómatsósa
 • 1 msk sveppaduft – t.d. þurrkaður Kóngssveppur mulinn í morteli
 • Nokkrir dropar soyjasósa
 • 3 – 5 gulrætur – mjög smátt saxaðar
 • Nýmalaður pipar
 • 2 – 3 dl rjómi
 • Þeyttur rjómi og persilja til skrauts

Verklýsing

Kryddblanda

 1. Kryddblandan sett í mortel og aðeins steytt

 

Humarsoð

 1. Smjör brætt á pönnu (eða potti)  – lauk, sellerí og hvítlauk bætt út í og steikt á vægum hita í 10 – 15 mínútur. Laukurinn á ekki að brúnast heldur verða glær
 2. Humarskelin sett á pönnuna og hitinn aðeins hækkaður – hrært í stutta stund. Vatni bætt við og hitað að suðu – látið sjóða í 10 – 15 mínútur
 3. Niðursoðinn grænn pipar, kryddblandan og curry paste sett út í og látið malla í u.þ.b. 30 mínútur
 4. Soð síað frá í gegnum sigti og geymt – gott að láta renna vel af. Soðið er u.þ.b. 5 – 7 dl

 

 

Humarsúpa

 1. Smjör brætt á djúpri pönnu (eða potti) – 1 tsk kryddblanda sett á pönnuna.  Hiti hækkaður og allur humarinn settur mjög snöggt í og aðeins hreyft við. Humarinn látinn steikjast örstutt á góðum hita (varast að steikja of mikið), tekinn upp úr og settur á disk – vökvinn látinn renna af í pottinn aftur (þ.e. aðallega smjör með ögn af humarbragði)
 2. Soð sett í pottinn og hitað að suðu – sósujafnari hrærður út í
 3. Hvítvín, mjólk, capers, tabasco, soyjasósa, tómatsósa, og sveppaduft – sett út í og hrært
 4. Gulrótum bætt við og látið krauma í 15 mínútur á meðalhita – gæta þess að hræra í reglulega
 5. Rjóma bætt við ásamt afgandi af kryddblöndunni (eða saltað og piprað) og smakka til – gott að láta standa á lágum hita í 10 -15 mínútur (ef tími er til)
 6. Súpan hituð að suðu – tekin af hellunni og humarinn settur út í (hægt að helminga humrana til að meira verði úr þeim) – borið strax fram
 7. Hver skál skreytt með þeyttum rjóma og persilju

Meðlæti

Nýbakað brauð t.d. Hvítlauks- og ólífubrauð, SólarhingsbrauðCiabatta, súrdeigsbrauð eða kaupa snittubrauð ef tíminn er naumur.

Humarsoð í vinnslu

Kryddblandan

 

Hráefni í súpuna og þurrkaður Kóngssveppur mulinn í morteli

IMG_3671

Humarsúpan – gulrætur, muldir þurrkaðir sveppir, humarsoð og sekúndusteiktur humar

IMG_3864

 

Tvöföld uppskrift – soð í vinnslu

img_7711

Humarinn steiktur örstutta stund og lagður svo til hliðar

img_7710

img_7715

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*