Súrdeigsbakstur – þarf ekki að vera flókinn
Uppruni
Það þarf alls ekki að vera flókið að baka súrdeigsbrauð – það eina sem er gott að hafa í huga er að hefingin tekur sinn tíma. Um leið og takturinn er fundinn er þetta leikur einn.
Athuga: Súrdeigsbaksturinn stjórnar ekki þér heldur stjórnar þú honum og aðlagar hann að þínum tíma og því sem hentar best. Ef þú vilt taka pásu í bakstursferlinu er það gert með því að setja deigið í kæli og halda svo áfram þar sem frá var horfið þegar hentar.
Hráefni
- 100 g súrdeigsgrunnur (í myndbandinu er notaður rúgmjölsgrunnur)
- 350 g vatn (frekar kaldara en heitara og alls ekki heitara en líkamshitinn)
- 100 g hveilhveiti
- 400 g hveiti
- 10 g gróft salt
- 25 g vatn
- Rúgmjöl er notað til að sigta yfir
Verklýsing
Gott að hafa eftirfarandi í huga:
- Það má alltaf stoppa í bakstursferlinu … en þá þarf bara að muna að setja deigið í kæli þannig að hægist á hefingunni. Í myndbandinu að ofan þurfti ég að stoppa tvisvar í bakstursferlinu, fyrst þegar ég var að snúa því og svo þegar deigið var tilbúið í körfunni. En það er lítið mál, bara að setja deigið í kæli og halda svo áfram þar sem frá var horfið þegar hentar. Ef ég hefði ekki stoppað ferlið hefði ég haldið áfram að snúa því á 30 mínútna fresti 3 – 4 sinnum þar til komið væri að þrískiptingunni.
- Það er sniðugt að margfalda uppskriftina og gera nokkur brauðdeig tilbúin í körfur/skálar og geyma í kæli til að eiga. Þannig er hægt að bjóða upp á nýbakað brauð án mikillar fyrirhafnar. Ég hef geymt svona tilbúið deig í körfum alveg upp í 6 daga. Það getur verið ágætt að taka körfuna út 1 klukkustund (samt ekki nauðsynlegt) áður en deigið fer í ofninn eða bara á meðan ofninn er að hitna.
- Yfirleitt finnst mér best að setja körfuna með deigið tilbúið í kæli yfir nótt og baka það svo daginn eftir.
- Ekki gefast upp… þetta verður bara auðveldara og brauðið betra.