Góð og seðjandi hindberjakaka
Uppruni
Á haustin er hindberjatíminn í mínum garði. Runnarnir vaxa eins og illgresi og stærstu berin koma þar sem sólin skín mest. Þá er upplagt að búa til hindberjaköku .. þó að ég tími varla að eyða þeim í kökuna. Það má líka alveg fara bara í búðina og kaupa frosin hindber. Þessi er notaleg og góð sunnudagskaka í vindasömum febrúarmánuði.
Hráefni
Botn
- 175 g smjör – við stofuhita
- 2½ dl sykur
- 2 egg
- 2½ dl rjómi
- 5 dl hveiti
- 2 tsk vanillusykur
- 1½ tsk lyftiduft
- 220 g hindber – fersk eða frosin
- 1 msk kartöflumjöl
Möndlukaramella og skraut
- 75 g smjör
- 1 dl sykur
- 2 msk mjólk
- 2 tsk vanillusykur
- 100 g möndluflögur
- Skraut: Fersk hindber og flórsykur
Verklýsing
- Ofninn stilltur á 175°C (yfir- og undirhiti)
- Bökunarpappír settur í lausbotna 23 cm smelluform – gott að smyrja formið með köldu smjöri eða olíu
- Smjör og sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós
- Eggi bætt við – einu í einu – þeytt á milli
- Rjóma bætt við blönduna. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti (gott að blandað saman í skál) – hrært varlega saman við deigið
- Deigið sett í formið
- Hindberjum og kartöflumjöli blandað saman og sett yfir (smekksatriði hvort berin eru maukuð aðeins eða látin vera heil) – þrýst aðeins ofan í deigið
- Kakan bökuð í 35 – 40 mínútur
Möndlukaramella og skraut
- Smjör, strásykur, mjólk og vanillusykur sett í pott – látið sjóða í nokkrar mínútur
- Möndluflögum bætt við og hrært saman
- Smurt yfir og kakan bökuð í 15 mínútur til viðbótar
- Kakan látin kólna 20 mínútur í forminu
- Fallegt að skreyta með ferskum hindberjum og flórsykri
- Borið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís
Geymsla: Er góð daginn eftir … og jafnvel tveimur dögum síðar












