Sól, sól skín á mig … sænskar sólbollur

Bollur með vanillukremi

 • Servings: /Magn: 26 - 30 bollur
 • Difficulty: meðal
 • Print

 

Uppruni

Mig hefur lengi langað til að baka þessar bollur.  Fann uppskriftina í sænsku blaði en þurfti að aðlaga hana þar sem mér hefur gengið illa að koma öllu vanillukreminu fyrir í bollunum.  Sólbollurnar minna á sænskar semlur sem eru bolludagsbollur Svía en þær eru einfaldlega bestar.  Hægt er að gera hæghefaða útgáfu en þá er minna ger notað.  Það er tiltölulega auðvelt að baka þessar bollur ef maður er kominn upp á lagið með gerbakstur. Ef ekki þá er bara um að gera að byrja að æfa sig… því að heimabakað bakkelsi er það langbesta.

Ath. Ef þú vilt búa til einfaldari bollur þá má alveg sleppa vanillukreminu – þær eru líka afbragðsgóðar þannig.

Hæghefing: Þá er eingöngu notað ½ tsk þurrger og mjólkin má vera köld en betra að smjörið sé við stofuhita (skorið í litla bita – svo að það blandist betur). Deigið hnoðað og plastfilma sett yfir skálina – geymt í kæli yfir nótt.  Daginn eftir er deigið tekið úr kæli, bollur mótaðar, klútur lagður yfir og látið hefast í 2 klukkustundir.

Forvinnsla: Upplagt að útbúa vanillukremið daginn áður eða jafnvel tveimur dögum áður.

Hráefni

Deig

 • 5 dl mjólk
 • 10 dl hveiti
 • 1 tsk steytt kardimomma – ef þú átt kardimommukjarna er gaman að steyta 5 – 10 kjarna og bæta við
 • 1 bréf þurrger
 • 1 tsk salt
 • Rúmlega 1 dl sykur eða síróp
 • 150 g smjör
 • Egg til penslunar – ekki nauðsynlegt

 

Vanillukrem

Ath. Þeir sem eru sérstaklega hrifnir af vanillukremi geta búið til 50% meira magn og sett stærri holur í bollurnar til að meira komist fyrir

 • 2 eggjarauður
 • 20 g maizenamjöl
 •  40 g sykur
 • ½ vanillustöng
 • 170 g mjólk
 •  10 g smjör
 • 1 egg (má sleppa) – til penslunar

Skraut

 • 1 – 1½  dl sykur
 • U.þ.b. 30 g smjör – brætt

Verklýsing

Deig

 1. Smjör brætt í potti. Þegar það hefur bráðnað er potturinn tekinn af hellunni og mjólk blandað saman við (passa að blandan sé ekki heitari en 37°C – betra að hún sé aðeins kaldari)
 2. Þurrger, sykur og kardimomma sett í hrærivélarskál og smjörblöndunni blandað saman við
 3. Hveiti og salti bætt við – lítið í einu og hrært (fyrst með sleikju og svo tekur hnoðarinn við). Þegar allt hveitið er komið í skálina er deigið hnoðað (á meðalhraða) í 10 mínútur.  Klútur lagður yfir og látið jafna sig í 10 – 20 mínútur
 4. Klúturinn tekinn af og bollur mótaðar.  Til þess að bollurnar verði allar svipaðar að stærð er hægt að vigta deigið áður en bolla er mótuð.  Hver bolla vegur u.þ.b. 55 – 65 g en stærð er smekksatriði.  Gott að nota lófann til að móta hverja kúlu (sjá mynd) og leggja á bökunarplötu með bökunarpappír (12 bollur)
 5. Ef þú vilt hafa bollurnar aðeins flatari má leggja lófann/spaða laust á hverja bollu.  Klútur lagður yfir og látið hefast í 2 klukkustundir

 

Vanillukrem

 1. Vanillustöngin klofin í tvennt, fræhreinsuð  og fræin og stöngin sett í pott ásamt mjólkinni – hitað
 2. Eggjarauður, sykur og maizenamjöl sett saman í skál og hrært saman.  Þegar mjólkin er orðin heit er vanillustöngin tekin upp úr og mjólkinni hellt í mjórri bunu í eggjarauðublönduna og þeytt um leið
 3. Blandan sett í pottinn aftur og á helluna.  Hrært stöðugt í þar til blandan fer að þykkna – ekki láta blönduna sjóða (alls ekki bullsjóða)
 4. Þegar kremið er orðið þykkt er það tekið af hellunni og smjörinu blandað saman við – látið kólna.  Vanillukremið er sett í rjómasprautu með stút. Ath. Gott að setja rjómasprautuna ofan í háa könnu (fínt að loka með klemmu neðst svo að vanillukremið leki ekki út) – þá er auðveldara að setja kremið ofan í sprautuna
 5. Kremið kælt (fínt að setja það í ísskápinn)

 

Samsetning

 1. Ofninn hitaður í 200°C (blástur)
 2. Næsta mál á dagskrá er að nota fingurinn eða sleifarskaft til að búa til holu í miðjuna á hverri bollu
 3. Bollurnar penslaðar með pískuðu eggi (alls ekki nauðsynlegt) og vanillukremi sprautað í holurnar
 4. Bakað í 10 – 15 mínútur – bökunartíminn fer eftir stærð bollanna
 5. Smjör brætt í skál og sykur settur í aðra skál
 6. Þegar bollurnar hafa bakast má láta þær kólna aðeins og síðan er penslað yfir með smjöri og hverri bollu dýft í sykurinn

Geymsla: Æðislegar nýbakaðar en fínar líka daginn eftir.  Það er líka upplagt að frysta þær

Smjör brætt og mjólk bætt við – tekið af hellunni

Deigið hnoðað í 5 – 10 mínútur

Bollur mótaðar

Það má alveg pressa aðeins á bollurnar

Vanillukrem í vinnslu

Vanillukremið sett í rjómasprautu – ágætt setja klemmu efst og neðst

Hola sett í miðjuna fyrir vanillukremið

Hér eru holurnar aðeins stærri

 

Það má nota vanillukorn í staðinn fyrir vanillustöng en þá verður kremið ekki eins gult (sjá mynd fyrir neðan). Ath. hæfilegt magn er ½ tsk og kornin eru sett í mjólkina eftir að hún er hituð.

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*