Lágkolvetnasamloka
Uppruni
Á lágkolvetnatímabilinu mínu var þetta eitt af því sem mér fannst bæði gott og einfalt. Hægt er að gera margvíslegar útgáfur og getur hver og ein „samloka“ verið ólík hinum. Það er bara um að gera að setja það á milli sem hverjum og einum finnst gott. Sterk majósósa gerir klárlega mikið.
Hráefni
Loka
- 1 egg
- ½ dl ostur – rifinn
- 1 dl kúrbítur – rifinn
- ¼ – ½ tsk krydd eins og t.d. rótargrænmeti og hvítlaukssalt frá Pottagöldrum
- 1 msk möndlumjöl
Sterk sósa
- Red curry paste eða harissa
- Majónes eða blanda af henni og grískri jógúrt
Verklýsing
- Olía sett á pönnu og hún hituð
- Allt hráefni hrært saman í skál og sett á pönnuna
- Ágætt að setja lok yfir og láta malla aðeins í nokkrar mínútur – ekki á of miklum hita. Þegar hún hefur náð að eldast loðir hún betur saman
- Næsta mál á dagskrá er að snúa henni við með stórum spaða. Þá má aðeins hækka hitann til að fá fallegan lit á hina hliðina
- Sterk sósa: Hráefnum blandað saman. Gott að smyrja aðeins með henni á lokuna
- Nú er bara um að gera að nota hugmyndaflugið. Ef þú átt afgang eins og t.d. kjúlla er gott að setja hann á milli, salat, avokadó, beikon eða bara það sem hverjum og einum finnst gott
- Salti og pipar stráð yfir