Bláberjarisottó með risarækjum

Bláberjarisotto með risarækjum

 • Servings: 3-6
 • Difficulty: meðal
 • Print

 

Uppruni

Þegar frystirinn er fullur af íslenskum bláberjum þarf maður klárlega að finna eitthvað skemmtilegt til að nota þau í …..  og hér kemur ein alveg glimrandi góð.  Það má segja að liturinn segi meira um hráefnið en bragðið af berjunum.  Þessi réttur þolir alveg að malla í rólegheitum og því er upplagt að búa hann til fyrr um daginn.  Risarækjurnar steiki ég líka stundum eitthvað fyrr og velgi þær svo aðeins áður en þær eru bornar fram.  Ég hef oftast notað þennan rétt sem forrétt en hann gengur alveg sem aðalréttur. Þetta er tiltölulega þægilegur og einfaldur forréttur þegar halda skal matarboð.

Hráefni

 • 150 g íslensk bláber (eða sambærileg) – fersk eða frosin
 • Smjör til steikingar – væn klípa
 • 150 g risottó grjón eða grautarhrísgrjón
 • 1 skarlottlaukur eða hluti af gulum lauk – smásaxaður
 • 200 ml vatn
 • 2 – 3 dl rjómi/matreiðslurjómi
 • 80 – 90 g rifinn parmesanostur og/eða Västerbottenostur
 • 3 hvítlauksrif – pressuð eða söxuð smátt
 • 1½ dl Martini dry (má einnig nota sætt hvítvín)
 • ½ dl góð ólífuolía
 • 1 tsk hvítlaukssalt t.d. frá Pottagöldrum
 • 2 – 4 stk risarækjur á mann (12 – 24 rækjur) – vökvinn af rækjunum notaður. Ath. Gott að taka þær úr frysti daginn áður og láta þær þiðna í kæli

Verklýsing

 1. Vatn sett í pott og hrísgrjónin ofan í – suðan látin koma upp
 2. Hrært aðeins í pottinum – potturinn tekinn af hellunni og vatnið sigtað aðeins frá (geri þetta til að minnka sterkjuna)
 3. 2 dl af vatni sett í pottinn með grjónunum – hrært í og suðan látin koma upp
 4. Bláberin sett í blandara og maukuð – bætt við hrísgrjónin og hitað
 5. 1 dl Martini/hvítvín  hellt út í – hrært í og hitinn látinn koma upp
 6. Parmesanosti blandað saman við og hrært
 7. Þegar hér er komið sögu er panna hituð og vel af smjöri sett á hana.  Hvítlaukur og laukur látnir mýkjast á frekar lágum hita á meðan risottóið fær aðeins að malla. Þegar laukurinn er orðinn glær er honum bætt við risottóið og pannan hituð aftur þ.e. ef steikja á rækjurnar strax (má alveg bíða og gera það rétt áður en maturinn er borinn fram)
 8. Vökvinn, sem kemur af rækjunum, er settur út í risottóið. Rækjurnar eru steiktar á heitri pönnunni og kryddaðar með hvítlaukssalti. Rækjurnar settar í skál þegar þær eru tilbúnar og hún lögð til hliðar
 9. ½ dl af Martini/hvítvíni er hellt á heita pönnuna og síðan í risottóið. Ath. Þetta má alveg gera rétt í lokin ef rækjurnar eru ekki steiktar strax
 10. Nú er rjóma bætt við risottóið og blandan hituð. Aðeins saltað og piprað og nú má blandan jafna sig á lægsta hita þar til bera á matinn fram
 11. Framsetning: Risottó sett á disk eða skál og skvetta af góðri olíu. Því næst ertu 2 – 5 rækjur settar ofan á  og  rifnum parmesanosti og grófu salti stráð yfir… má líka alveg skreyta með nokkrum bláberjum

 

Hönnupottur:  Ef þú átt einn stóran er gaman að velgja pottinn aðeins í ofni og setja risottóið í hann, raða rækjunum yfir og skreyta með parmesanosti og ferskum bláberjum.  Ef rétturinn þarf aðeins að bíða má setja lokið á og geyma réttinn í ylvolgum ofni (60°C).  Ég hef borið réttinn fram sem forrétt í litlum Hönnupottum og þá með lokinu á…. gestirnir sjá ekki forréttinn fyrr en lokið er tekið af.

Hráefni

 

Grjónin aðeins soðin (til að ná sterkjunni úr) og svo vatnið sigtað frá – þetta er ekki nauðsynlegt

Bláberin maukuð

Hrísgrjón sett í pott ásamt vatni og suðan látin koma upp – bláberjasafa  bætt  við

Vökvinn af rækjunum  látinn út í

Martini og rjóma bætt við

Hvítlaukur og laukur steiktir

Lauknum bætt við

Rifinn ostur..

Risarækjur steiktar

Rækjur lagðar til hliðar og Martini sett á heita pönnuna

… hellt svo í risottóið

 

Litlir pottalingar bíða eftir að vera bornir fram 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*