Einfaldur grjónagrautur
Uppruni
Þessi uppskrift er heimatilbúin og hefur hún verið notuð í áraraðir. Tilvalið að hafa grjónagraut á matseðlinum ef gömul mjólk eða rjómi leynist í ísskápnum – nokkurra daga soðin hrísgjrón væri líka upplagt að nota.
Hráefni
- 3 dl hrísgrjón – helst grautarhrísgrjón
- 3 dl vatn
- 1 tsk saltflögur
- U.þ.b. 1½ – 2 lítrar mjólk
- Rjómi (jafnvel þeyttur)/matreiðslurjómi – ef til er
Verklýsing
- Hrísgrjón og vatn sett í pott – láta vatnið fljóta vel yfir grjónin
- Suðan látin koma upp og hrært í – soðið í 2-3 mínútur
- Vatni er hellt frá – þá fer sterkjan (hvítlitað vatn)
- Vatn (3 dl) sett í pottinn ásamt salti og suðan látin koma upp. Soðið í nokkrar mínútur
- 1 lítra af mjólk hellt út í – látið sjóða í nokkrar mínútur – hrært í
- Hitinn lækkaður niður í lægsta (eða næst lægsta) – hrært öðru hvoru
- Mjólk bætt út í (eða rjómaafgöngum) eftir þörfum og grauturinn látinn malla á lægsta hita. Ágætt að hækka hitann í smá tíma, standa við og hræra, lækka hitann aftur – jafnvel slökkva undir í einhvern tíma. Ef tíminn er tæpur er hægt að hafa meiri hita á hellunni og minnka suðutímann en þá er mikilvægt og fylgjast vel með
- Nokkuð frjálslegt – bara muna að gleyma ekki grautnum á miklum hita – mjólk brennur frekar auðveldlega við og ef það gerist kemur vont bragð af grautnum (ef hann brennur við í botninum er mikilvægt að skafa ekki – færa grautinn yfir í annan pott og taka bara það sem er laust ofan á). Venjulega er hann frekar þykkur hjá mér en það er smekksatriði hvort hann eigi að vera þykkur eða þunnur
Meðlæti
Gott að setja kanilsykur út á grautinn og ef maður býr svo vel að eiga heimalagaða krækiberjasaft er hún frábær með. Einnig er hægt að nota Ribena eða mjólk. Sumir láta rúsínur eða niðurskorna lifrarpylsu út í grautinn en aðrir alls ekki neitt.