Risasnúður með bláberjum bakaður í leirpotti
Uppruni
Hvað er betra en nýbakaður og dúnmjúkur snúður… hvað þá risasnúður? Risasnúð er tiltölulega auðvelt að baka – sérstaklega ef búið er að ná taktinum með gerbakstur. Ef hann er ekki kominn.. þá er bara um að gera að æfa sig. Eina krafan, sem risasnúður gerir, er að fá að hefast í 1 klukkustund þar sem lítill trekkur er. Þegar búið er að baka snúðinn má skera hann eins og hverja aðra köku eða brauð – bara það sem hverjum og einum finnst best.
Leirpottur
Pottur (Hönnupottur) sem tekur u.þ.b. 1½ lítra passar mjög vel. Ef potturinn er stór finnst mér ég stundum ná fallegri lögun ef bakað er í pottlokinu.
Hráefni
- 2 tsk þurrger
- 2½ dl mjólk
- 60 g smjör
- ½ tsk salt
- 1 tsk vanllusykur
- 6 – 7 dl hveiti
Fylling
- 100 g frosin bláber
- 1 dl flórsykur
- 50 – 55 g smjör – við stofuhita
Ofan á
- 1 tsk vanillusykur
- ½ – 1 tsk lakkrísduft
- Egg til penslunar
Verklýsing
- Þurrger sett í skál
- Smjör brætt í potti og mjólk hellt út í. Yfirleitt er blandan mátulega heit þegar brædda smjörið og mjólkin hafa blandast saman. Ef hita þarf aðeins betur er mjög mikilvægt að hita blönduna ekki meira en 37°C (alls ekki hærra – hafa hana frekar aðeins kaldari). Hluta af blöndunni hellt í skálina með þurrgerinu og það látið leysast upp. Afgangi af mjólkurblöndunni hellt saman við
- Salt og vanillusykur sett út í – hrært í með sleikju. Nokkrum dl af hveiti bætt við og blandað saman. Deigið hnoðað í lokin í hrærivél eða í höndunum – deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna – betra að hafa það aðeins blautara en of þurrt
- Klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur. Það getur t.d. verið gott að hafa skálina í lokuðum búrskáp
- Ofninn stilltur á 250°C (undir- og yfirhiti) og leirpotturinn látinn hitna með ofninum
- Deigið tekið úr skálinni og lagt á hveitistráð borð. Flatt út með kökukefli í u.þ.b. 30 x 50 cm
- Fylling: Bláber og flórsykur sett í skál og maukað saman með töfrasprota eða sett í blandara – bláberin eru maukuð vel saman við flórsykurinn þannig að úr verði kekkjalaus blanda. Smjöri dreift yfir deigið (ef það er of hart er ágætt að setja það aðeins í örbylgjuofninn eða mýkja það í potti). Ath. betra að smjör og fylling nái ekki alveg út á brúnirnar – þá lekur síður út um allt og endarnir lokast betur
- Bláberjablöndunni er dreift yfir með sleikju. Vanillusykur og lakkrísduft blandað saman í skál. Þeir sem eru sérstaklega hrifnir af lakkrís geta dreift aðeins af lakkrísduftblöndunni yfir – deigið rúllað upp. Lokað fyrir annan endann og rúllað saman í einn stóran snúð
- Deigið penslað með pískuðu eggi og lakkrísvanilludufti sigtað yfir snúðinn – þetta má gera áður eða eftir að snúðurinn er kominn ofan í heitan pottinn
- Snúðurinn settur í heitan pottinn (með loki) og látinn bakast í 25 mínútur
- Ágætt að taka lokið af aðeins áður til að fá fallegan lit – ekki víst að þess þurfi
Bláberjafylling í vinnslu
Aðeins af lakkrísduftblöndunni sigtað yfir – má sleppa