Snúðar sem hitta í hjartastað…

Snúðahjarta með hindberjum og hvítu súkkulaði

  • Servings: Magn: 18 snúðar
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Enn og aftur kemur ein snúðauppskriftin… mér finnst  bara svo gaman að leika mér með nýjar útgáfur og ný form.  Að þessu sinni er það hjartafom en það má líka rúlla upp í einn stóran snúð og baka í leirpotti eða baka 18 aðskilda snúða.  En það má klárlega gleðja einhvern með einum hjartasnúði.

Forvinna

Upplagt að búa hindberjafyllinguna til fyrr um daginn eða daginn áður.

Hráefni

Deig

  • 3 tsk þurrger
  • 1 egg
  • 3 dl mjólk
  • 100 g smjör
  • ½  dl sykur
  • 1 tsk saltflögur
  • 1 tsk kardimomma – steytt
  • 8 – 9 dl hveiti

 

Fylling

  • 50 g smjör
  • 180 – 200 g frosin hindber
  • 1 dl flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 150 g hvítar súkkulaðiperlur
  • 1 egg – til penslunar

 

Krem ofan á

  • ¼ – ½ dl sigtuð/ósigtuð hindberjablanda
  • ½ – 1 dl rjómaostur (má sleppa)
  • 1 – 1½ dl flórsykur

Verklýsing

  1. Smjör brætt í potti.  Þegar smjörið er bráðnað er mjólkinni bætt við ásamt egginu og blandað saman  (þá fæst oft mátulegur hiti (má alls ekki vera hærri en 37°C – sjá gerbakstur)
  2. Þurrger, kardimomma og sykur sett í skál og skvettu af mjólkurblöndunni blandað saman við – hrært saman. Afgangi af mjólkurblöndunni bætt við ásamt hveiti – ágætt að setja 4 -5 dl fyrst og hræra saman með sleikju
  3. Afgangi af hveitinu ásamt salti blandað saman við og hnoðað. Klútur settur yfir og látið hefast þar sem lítill trekkur er í eina klukkustund (yfirleitt tvöfaldast deigið að stærð)
  4. Fylling: Smjör brætt ásamt hvíta súkkulaðinu – blanda saman.  Hindber og flórsykur maukað saman t.d. með töfrasprota.  Sumir eru ekki hrifnir af kornunum í hindberjunum og þá má sigta þau frá. Sigtaður safi er u.þ.b. 2 dl – ágætt að taka tæplega ¼ – ½ dl frá í kremið (bara eftir því hvað maður vill hafa mikið krem)
  5. Deigið tekið úr skálinni og sett yfir hveitistráð borð.  Flatt út með kökukefli þannig að það verði ca. 40×50 cm að stærð.  Smjörblöndunni dreift yfir og síðan nær allri hindberjablöndunni  – ágætt að fara ekki alveg að brúnunum.  Deigið rúllað upp og síðan er togað aðeins í endana þannig að rúllan verði jafnari
  6. Rúllunni skipt í tvennt – síðan er hverjum helmingi skipt í þrjá hluta og svo hverjum þriðjungi í þrennt.  Þetta verða 18 snúðar sem er raðað á smjörpappír þannig að hjarta myndast – sjá mynd.  Þegar verið er að skipta deiginu niður er gott að gera fyrst far með hnífnum og skera svo alveg niður þegar búið er að áætla stærð snúðanna – fyllingin getur aðeins lekið úr en það má bara dreifa því yfir snúðana eða setja það í kremið
  7. Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti) og klútur lagður yfir hjartað á meðan ofninn er að hitna
  8. Þegar ofninn hefur náð hitanum er eggið pískað (hrært) og snúðurinn penslaður með því.  Snúðurinn bakaður í 15 – 20  mínútur – fylgjast með síðustu mínúturnar svo hann verði ekki of dökkur. Snúðahjartað látið kólna
  9. Krem ofan á: Flórsykri blandað saman við það sem eftir er af hindberjablöndunni. Rjómaosti bætt við og hrært saman þar til blandan verður slétt og fín.   Flórsykur sigtaður yfir hjartað og hindberjakreminu hellt yfir hér og þar – gott að nota skeið eða gaffal til að dreifa úr því – má vera frjálslegt

 

Geymsla: Ef afgangur er af snúðunum er upplagt að aðskilja þá og skella þeim í frystinn.

 

Hráefni

Deig í vinnslu

Hinberjafylling í vinnslu (alls ekki nauðsynlegt að sigta hindberjafyllinguna)

Um að gera að fá hjálparkokka

 

Hér komust ekki nema 17 snúðar í hjartað – einn snúður bakaður sér (bökunartími 5 – 10 mínútnur)

Krem í vinnslu

 

 

Krem með minna af rjómaosti og með hindberjakornunum

 

Krem án rjómaosts

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*