Massaður marsipansnúður bakaður í leirpotti
Uppruni
Það er alltaf jafngaman að prófa sig áfram með að baka og elda í leirpottunum. Hérna kemur uppskrift að einum mössuðum marsipansnúði sem er einfalt og fljótlegt að skella í. Snúðinn má taka upp úr pottinum og skera eins og hverja aðra köku eða brauð – eða bara að ná sér bita af einni bollu. Það má alveg baka snúðinn á bökunarplötu eða í potti sem þolir að fara í ofn.
Leirpottur
Pottur (Hönnupottur) sem tekur u.þ.b. 1½ lítra passar mjög vel.
Hráefni
- 2 tsk þurrger
- 2 dl mjólk
- 75 g smjör
- ½ tsk salt
- ½ dl sykur
- 1 msk vanllusykur
- 1 egg (má sleppa)
- 6 – 7 dl hveiti
Fylling
- 200 g marsipan – rifið
- 90 – 100 g smjör
- Egg til penslunar
- Sykurskraut og/eða möndluflögur
Verklýsing
- Þurrger, salt, sykur og vanillusykur sett í skál
- Smjör brætt og mjólk hellt út í – yfirleitt er blandan mátulega heit þegar brædda smjörið og mjólkin hafa blandast saman. Það er mjög mikilvægt að blandan sé ekki meira en 37°C (Gerbakstur góð ráð). Blöndunni hellt í skálina, með þurrefnunum og hún látin leysast upp – hrært í með sleikju
- Eggi og nokkrum dl af hveiti bætt við og blandað saman með sleikju. Afganginum af hveitinu bætt við og deigið hnoðað í lokin í hrærivél eða í höndunum – deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna (Ath. betra að það sé aðeins blautt en of þurrt)
- Klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur
- Ofninn stilltur á 225°C (yfir og undirhiti) og tómur leirpotturinn settur í ofninn
- Deigið tekið úr skálinni og lagt á hveitistráð borð. Flatt út með kökukefli í u.þ.b. 25 x 50 cm
- Smjöri dreift yfir deigið (ef það er of hart er ágætt að setja það aðeins í örbylgjuofninn eða mýkja það í potti)
- Rifnu marsipani stráð yfir og deigið rúllað upp – gott að toga aðeins í rúlluna til að lengja hana (u.þ.b. 70 cm löng)
- Klippt í hálfa rúlluna með reglulegu millibili – lengjunni rúllað upp og togað aðeins í skornu bitana – sjá myndir
- Deigið pennslað með pískuðu eggi og skreytt með sykurskrauti og möndlumulningi/flögum
- Snúðurinn settur í heitan pottinn og látinn bakast í u.þ.b. 25 mínútur (lokið sett á)
- Ágætt að taka lokið af aðeins áður til að fá fallegan lit