Knús í hús með risasnúði

Massaður marsipansnúður bakaður í leirpotti

 • Servings: Magn/: 1 stór snúður
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Það er alltaf jafngaman að prófa sig áfram með að baka og elda í leirpottunum.  Hérna kemur uppskrift að einum mössuðum marsipansnúði sem er einfalt og fljótlegt að skella í. Snúðinn má taka upp úr pottinum og skera eins og hverja aðra köku eða brauð – eða bara að ná sér bita af einni bollu.  Það má alveg baka snúðinn á bökunarplötu eða í potti sem þolir að fara í ofn.

Leirpottur

Pottur (Hönnupottur) sem tekur u.þ.b. 1½ lítra passar mjög vel.

Hráefni

 • 2 tsk þurrger
 • 2 dl mjólk
 • 75 g smjör
 • ½ tsk salt
 • ½ dl sykur
 • 1 msk vanllusykur
 • 1 egg (má sleppa)
 • 6 – 7 dl hveiti

 

Fylling

 • 200 g marsipan – rifið
 • 90 – 100 g smjör
 • Egg til penslunar
 • Sykurskraut og/eða möndluflögur

Verklýsing

 1. Þurrger, salt, sykur og vanillusykur sett í skál
 2. Smjör brætt og mjólk hellt út í – yfirleitt er blandan mátulega heit þegar brædda smjörið og mjólkin hafa blandast saman.  Það er mjög mikilvægt að blandan sé ekki meira en 37°C (Gerbakstur góð ráð).  Blöndunni hellt í skálina, með þurrefnunum og hún látin leysast upp – hrært í með sleikju
 3. Eggi og nokkrum dl af hveiti bætt við og blandað saman með sleikju. Afganginum af hveitinu bætt við og deigið hnoðað í lokin í hrærivél eða í höndunum – deigið á að vera þannig að hægt sé að snerta það án þess að það klístrist við fingurna (Ath. betra að það sé aðeins blautt en of þurrt)
 4. Klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 1 klukkustund á stað þar sem ekki er trekkur
 5. Ofninn stilltur á 225°C (yfir og undirhiti) og tómur leirpotturinn settur í ofninn
 6. Deigið tekið úr skálinni og lagt á hveitistráð borð. Flatt út með kökukefli í u.þ.b. 25 x 50 cm
 7. Smjöri dreift yfir deigið (ef það er of hart er ágætt að setja það aðeins í örbylgjuofninn eða mýkja það í potti)
 8. Rifnu marsipani stráð yfir og deigið rúllað upp – gott að toga aðeins í rúlluna til að lengja hana (u.þ.b. 70 cm löng)
 9. Klippt í hálfa rúlluna með reglulegu millibili – lengjunni rúllað upp og togað aðeins í skornu bitana – sjá myndir
 10. Deigið pennslað með pískuðu eggi og skreytt með sykurskrauti og möndlumulningi/flögum
 11. Snúðurinn settur í heitan pottinn og látinn bakast í u.þ.b. 25 mínútur (lokið sett á)
 12.  Ágætt að taka lokið af aðeins áður til að fá fallegan lit

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*