Súrdeigsbrauð sem gleður unga fólkið
Uppruni
Hér kemur útgáfa af súrdeigsbrauði sem er bæði góð og einföld en bara eins og oft áður þarf að gera ráð fyrir hefingartíma. Brauðið inniheldur bæði rúgmjöl og heilhveiti en er samt létt og gott – ekki spillir fyrir að inn á milli leynast suðusúkkulaðibitar. Brauðið er best nýbakað en ef eitthvað er afgangs er frábært að skera það niður og setja í frysti. Ristuð sneið með smjöri og osti er alveg extra gott með morgunkaffinu.
Forvinna
Deigið má gera tilbúið (liður 1 – 4) og geyma í kæli alveg upp í 3 – 4 daga. Þá er bara eftir að hita ofninn og baka það.
Hráefni
- 300 g súrdeigsgrunnur
- 350 ml vatn – alls ekki of heitt
- 2 dl heilhveiti
- 1 dl rúgmjöl
- U.þ.b. 7 dl hveiti
- 10 g sjávarsalt
- 30 g vatn
- 100 g suðusúkkulaðibitar
Verklýsing
- Vatni hellt í stóra skál ásamt súrdeigsgrunni – hveiti, heilhveiti og rúgmjöli bætt saman við. Blandað saman við með sleikju – látið bíða í 30 – 40 mínútur
- Salti bætt við ásamt vatni (30 g) og súkkulaðibitum – hnoðað saman með hnúanum (sjá myndir). Sett í lokað ílát – gott að eiga plastílát með loki til að nota fyrir súrdeigs- og gerbakstur. Látið hefast við stofuhita í u.þ.b. 3 klukkustundir (eða setja í kæli yfir nótt)
- Plastílátinu snúið á hvolf á rúgmjölsstráðan flöt (gott að nota sigti). Deigið látið falla á borðið (ef tími er til þá er gott að láta deigið jafna sig í 30 – 40 mínútur eftir að það er komið á borðið) – þrískiptingin gerð og kúla mótuð (sjá myndir)
- Kúlan sett í skál/körfu (gott að setja viskustykki undir og sigta rúgmjöli yfir) og látin hefast í u.þ.b. 3 klukkustundir (enn og aftur er hægt að hægja á hefingu með því að setja í kæli). Ef karfan/skálin hefur verið í kæli er gott að taka hana út 1 – 2 klukkustundum áður en brauðið fer í ofninn
- Ofninn hitaður í 250°C (yfir- og undirhiti). Ef baka á brauðið í potti er hann látinn hitna með ofninum
- Fallegt að skera mynstur á brauðið með beittu hnífsblaði áður en það er sett í ofninn. Deiginu hvolft í heitan pottinn eða á bökunarplötu og bakað í 35 – 40 mínútur. Ef brauðið er bakað í potti er lokið tekið af þegar það hefur verið 25 – 30 mínútur í ofninum
Liður 1
Liður 2
Salti, súkkulaðibitum og vatni bætt við. Höndin notuð til að safna deigi saman og hnúanum beitt til að hnoða það – gert 2 – 3 sinnum
Deigið sett í box með loki og látið hefast í 3 – 4 klukkustundir við stofuhita
Liður 3
Deigið látið falla á borðplötuna – gott að láta það jafna sig í 30 – 40 mínútur ef tími er til
Kúla mótuð – sett í skál og látið hefast í 3 – 4 klukkustundir við stofuhita eða í kæli yfir nótt
Deigið bakað í potti eða ofnskúffu
Myndband – hluti af bakstursferlinu