Ótrúlega einfaldur og góður eftirréttur bakaður í leirpotti

Heitt ávaxtapæ bakað í leirpotti

 • Servings: /Magn: Fyrir 4 – 5 eða 7 - 9
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Hún Dagný býður gjarnan upp á eplapæ í potti og leyfir bæði hugmyndafluginu að ráða för og því sem er til í skápunum.  Ég ákvað að nota hennar grunn og setti í það sem skáparnir höfðu upp á að bjóða og tókst það ljómandi vel. Þar sem ég var búin að lofa að búa til þetta pæ aftur ákvað ég að skrifa niður það sem ég notaði …bara svona til að gleyma ekki hráefnalistanum. Annars er um að gera að velja það sem hverjum og einum finnst best. Til dæmis má nota eingöngu epli eða perur, bæta hnetum við, sleppa kókosflögunum, setja suðusúkkulaðidropa, hvítt súkkulaði eða jafnvel súkkulaðirúsínur …. bara það sem hver og einn vill.

Pæið baka ég í leirpottunum, sem ég hef verið að búa til í nokkur ár, en upphaflega voru þeir hugsaðir til að baka í þeim brauð.

 

Hráefni

Botn – (minni útgáfan í sviga)

 • 2 epli (1 epli) – flysjuð (nema þau séu lífræn)
 • 1 – 2 perur (1 pera) – flysjaðar (nema þær séu lífrænar)
 • 100 -130 g (50 – 65 g) frosin hindber
 • 1 tsk (½ tsk) kanill
 • 1 tsk (½ tsk) vanillusykur
 • 2 – 4 msk (1 – 2 msk) kókosflögur
 • Rúmlega 1 dl (rétt rúmlega ½ dl) rjómasúkkulaðidropar
 • 2 – 3 (1 – 1½) kókosbollur/buff
 • 1 – 2 msk (1 msk) hunang

 

Ofan á

 • 200 g (100 g) smjör við stofuhita
 • 2 dl (1 dl) sykur
 • 2 dl (1 dl ) hveiti

Verklýsing

Botn

 1. Ofninn hitaður í 180°C (blásturstilling)
 2. Epli og perur skorið í litla bita – sett í skál
 3. Hindberjum, kókosflögum og súkkulaðidropum blandað saman við ásamt kanil og vanillusykri
 4. Blandan sett ofan í leirpott (eða eldfast mót)
 5. Hunangi dreift yfir og að lokum eru kóksbollur kramdar og þeim dreift yfir

 

Ofan á

 1. Smjör og sykur hrært saman
 2. Hveiti sett út í (betra að setja lítið í einu) – hrært vel saman
 3. Deiginu dreift yfir blönduna í pottinum
 4. Sett inn í ofn og bakað í 35 – 40 mínútur
 5. Borið fram volgt

 

Meðlæti

Borið fram með þeyttum rjóma eða ís.

 

 

  

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*