Dásamlega einfaldur og safaríkur ketó kjúklingur

Safaríkur kjúklingur eldaður í leirpotti

 • Servings: 4
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Að undanförnu hef ég verið að gera tilraunir með að elda mat í brauðpottum sem ég bý til. Þessi ketó kjúklingaréttur er einmitt ein af þessum tilraunum. Hann er algjörlega frábær, mjög einfaldur og góður og höfðar til breiðs aldurshóps. Það þarf samt að gefa sér smá tíma í þennan rétt þar sem eldunartíminn er u.þ.b. 1½ – 2 klukkustundir. Þegar kjúklingurinn kemur kraumandi úr ofninum helli ég annað hvort chillimajó eða hvítlaukssósu yfir hann – sósurnar eru ólíkar en báðar mjög góðar. Ég hef yfirleitt gert tvo kjúklinga og þá báðar sósurnar þar sem ekki allir eru sammála um hvor er betri.  Þeir sem vilja fara ennþá auðveldari leið geta náð sér í uppáhalds tilbúnu sósuna í ísskápnum og hellt henni yfir …. mæli þó eindregið með að búa til sína eigin. Töluverður vökvi safnast í botni pottsins. Hann blandast svo sósunni þegar henni er hellt yfir – algjörlega nauðsynlegt að gæða sér á henni og hvítlauksrifin eru æði (bara sleppa að borða hýðið)

 

Forvinna

Mæli eindregið með að búa til sósurnar fyrr um daginn, jafnvel daginn áður (eða tveimur) og eiga í kæli.

 

Hreinlæti

Eins og alltaf er hreinlæti mikilvægt í matargerð – það á sérstaklega við um kjúkling. Ég nota yfirleitt ekki hanska heldur passa upp á að þvo hendur vel fyrir og eftir að ég hef verið að umleika kjúkling.  Einnig er mikilvægt að þvo allt vel, sem notað er við matargerðina, eins og t.d. bretti, borð og kryddkrukkur.

Hráefni

Kjúklingur

 • 1 kjúklingur (u.þ.b. 1,8 – 2 kg)
 • Hægt er að nota það krydd sem hverjum og einum þykir gott.  Ég hef t.d. notað Swarma og Miðausturlönd (frá Kryddhúsinu), Gyros (fæst venjulega í Tiger) eða Kebab kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
 • 4 – 8 hvítlauksrif – með hýðinu
 • Saltflögur

 

Chilimajóssósa – sjá uppskrift

 • Fyrir þá sem finnst hún of sterk er bent á að blanda aðeins af grískri jógúrt eða sýrðum rjóma saman við

 

Hvítlaukssósa með graslauk

 • 30 – 40 g graslaukur – saxaður. Ath. nota rúmlega 20 g í sósuna og afganginn til að skreyta
 • 1 dl rjómaostur
 • 2½ – 3 dl sýrður rjómi
 • 2 tsk sítrónusafi
 • 2 – 4 hvítlauksrif – pressuð

Verklýsing

Kjúklingur

 1. Ofninn stilltur á 180°C (blásturstilling)
 2. Kjúklingur þurrkaður, kryddaður og settur í leirpottinn (sjá myndband). Mér finnst betra að vera ekki með of stóran pott þannig að kjúklingurinn nái að krauma vel í vökvanum sem rennur af honum
 3. Hvítlauksrifin – sett hér og þar í pottinn. Ágætt að þrýsta hnífi ofan á hvert rif svo það kremjist aðeins. Lokið sett á pottinn (sjá myndband)
 4. Kjúklingurinn er eldaður í 1½ – 2 klukkustundir (háð þyngd). Lokið er tekið af pottinum síðustu mínúturnar – bara til að fá fallegri lit á kjúklinginn (þarf ekki alltaf).  Þeir sem eru óöruggir með eldunina geta stungið kjöthitamæli í bringuna – kjúklingurinn á að vera tilbúinn þegar mælirinn sýnir 78°C
 5. Saltflögum stráð yfir

 

Chilimajó

 1. Best að búa til heimagert Chilimajó en einnig er hægt að nota tilbúna sósu

Hvítlaukssósa með graslauk

 1. Allt hráefni hrært vel saman – gott að láta sósuna standa aðeins

 

Framsetning

U.þ.b. 3 dl af sósu hellt yfir heitan kjúklinginn (ég helli ekki allri sósunni yfir heldur ber hana einnig fram með).  Kjúklingurinn er borinn fram í pottinum þar sem sósan neðst í pottinum er ómissandi með.  Auðvelt er að næla sér í legg eða væng en svo er bara að skera sér bita og hafa sósuskeið með til að hella yfir kjötið og hrísgrjónin.

Skraut: Ef Chilimajósósunni er hellt yfir er fallegt að strá chilisneiðum yfir en ef hvítlaukssósan er notuð skreytir mikið að dreifa söxuðum graslauk yfir í lokin

Meðlæti: Gott með hrísgrjónum en fyrir þá sem aðhyllast ketó er upplagt að hafa ofnsteikt grænmeti.  Ferskt og brakandi salat er svo ómissandi með.

 

Sósur í vinnslu

Sósur tilbúnar

Kjúklingur í vinnslu

 

 

Gott að bjóða upp á hrísgrjón og krydda þau t.d. með kryddblöndu frá Kryddhúsinu

 

2 Comments

 1. Mikael Torfason

  Þessi er frábær. Takk fyrir mig. Takk fyrir æðislega síðu. Búinn að nýta mér allar súrdeigsuppskriftirnar og kominn í kjúlli og chili majo. Þarf reyndar að kaupa af þér pott næst þegar ég er á Íslandi.

  Kveðja frá Vínarborg.

  • Takk fyrir og gaman að vita að uppskriftirnar koma að gagni 🙂 Þessa dagana er ég markvist að vinna í einfaldari útfærslu á pottunum, í stærð sem passa fyrir sem flest. Mér finnst svo frábært að nota þá fyrir brauð, kjúlla, eftirrétti og núna er nýjasta æðið að hægelda í þeim. Kíktu endilega þegar þú er næst á landinu – verð örugglega komin með fína útfærslu af potti.
   Kveðja, Hanna

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*