Gulrótarbuff með hvítlaukssósu og spagetti

Gulrótarbuff með hvítlaukssósu og spagetti

  • Servings: /Magn: U.þ.b. 30 lítil buff
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessi uppskrift er á gömlum íslenskum uppskrifarspjöldum. Ég bjó buffin oft til hér á árum áður og mér fannst þau vera mjög góð. Segja má að það sé svolítið tímafrekt en mér finnast buffin alveg jafngóð og mér þótti áður fyrr – hvítlaukssósan er nauðsynleg með. Það versta er að ég er ein á heimilinu með þessa skoðun – börnin borða þau en myndu sennilega kjósa frekar eitthvað allt annað.

Forvinna

Gott að laga jógúrtsósuna eitthvað áður og láta hana standa aðeins. Einnig er hægt að gera lið 1 – 8 aðeins áður og geyma buffin í kæli.

Hráefni

Gulrótarbuff

  • 2 laukar – saxaðir
  • 1 hvítlauksrif – saxað
  • Repjulolía til steikingar
  • 2 tsk karrý
  • 1 dl hrísgrjón
  • 1½ dl vatn
  • ½ tsk salt
  • Pipar
  • 350 g gulrætur
  • Tæplega 2 dl hveiti
  • 1 egg
  • 1½ dl steinselja – söxuð
  • Tæpur 1 dl rifinn parmesanostur
  • Tæplega 1 dl hveiti

Hvítlaukssósa

  • 1 dós hrein jógúrt
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 – 2 hvítlauksrif – pressuð
  • Salt og pipar
  • 1 msk fersk mynta eða 1 tsk þurrkuð mynta

Verklýsing

Gulrótarbuff

  1. Laukur og hvítlaukur léttsteiktir í olíu – á lágum hita í 5 – 10 mínútur
  2. Karrýi og hrísgrjónum bætt við – blandað saman
  3. Vatni hellt út í, saltað og soðið á vægum hita í 15 mínútur
  4. Slökkt á hitanum og látið standa undir loki í 10 mínútur
  5. Gulrætur rifnar og þeim hrært saman við ásamt hveiti, eggi, salti, pipar og steinselju
  6. Parmesanostur og hveiti blandað saman í skál
  7. Lítlar kúlur mótaðar (25 – 30 g hver) og settar á disk
  8. Kúlunum velt úr parmesanhveitinu – ágætt að ýta létt á kúluna þannig að lítið flatt buff myndist
  9. Buffin steikt í olíu á pönnu í u.þ.b. 2 mínútur á hvorri hlið – gott að það sé kominn fallegur litur á buffin
  10. Hægt að bera fram strax eða að leggja buffin til hliðar og velgja þau svo aftur á pönnunni rétt áður en þau eru sett á borðið

 

Hvítlaukssósa

  1. Jógúrt og olía hrært saman. Hvítlauk bætt við ásamt salti og pipar
  2. Niðurskorin fersk mynta sett út í

Meðlæti

Borið fram með nýsoðnu heilhveitispagetti og fersku salati.

IMG_6515

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*