Pizzudeig
Uppruni
Þessi uppskrift kemur úr gamalli kennslubók í matreiðslu. Deigið þarf ekki nema 15 mínútna hefingu (má vera lengur) og er því mjög fljótlegt að búa það til. Það má líka búa til deigið eitthvað áður og geyma það yfir nótt/nætur í skál með plasti yfir eða í plaspoka. Hægt er að minnka magn gers og lengist þá hefingartíminn. Pizzudeigið þolir vel að vera geymt í kæli í 1 – 3 daga.
Hráefni
- 50 g pressuger eða 3 tsk þurrger
- 3 dl volgt vatn
- 2 msk matarolía
- 8 dl hveiti
- 1 tsk salt
Verklýsing
- Hita vatn þannig að það verði ylvolgt (37°C)
- Blanda geri og vatni saman
- Bæta salti og olíu saman við
- Helmingi af hveitinu bætt við og hrært
- Bæta við hinum helmingnum af hveitinu í skömmtum og hnoða í vél (eða með höndunum). Gott að hætta að hnoða deigið þegar það klístrast ekki lengur við skálina. Auðveldara að bæta hveiti við, ef með þarf, þegar deigið er flatt út en að hafa það of þurrt
- Látið hefast í 10 mínútur eða lengur
- Miða við að hver pizza sé um 200 g – barnapizza 170 g
- Ef pizzan er bökuð í ofni er hann hitaður í 225°C (yfir- og undirhita) og pizzan bökuð í u.þ.b. 8 mínútur
- Ef pizzan er bökuð á pizzusteini á grilli tekur það 5-7 mínútur ef grillið er á hæsta hita
Hugmyndir að áleggi
Á pizzuna er sett heimagerð pizzusósa en annað meðlæti er háð smekk hvers og eins.
Börnin velja sér oftast eitthvað af þessu: Heimagerð pizzusósa, skinka, ólífur, ostur (sambland af pizzu- og mozarellaosti), rjómaostur, mozarella kúlur, piparostur, ananas, afgangur af hakki (ef það er til).
Vetrarpizza: Heimagerð pizzusósa, pepperóni, skinka, rjómaostur, laukur, sveppir o.s.frv.
Ekki er gott að hlaða of miklu á pizzuna þar sem hún getur orðið of þung og erfið í bakstri. Áleggið þarf að vera þurrt og pizzan má ekki blotna.
Góð ráð við gerbakstur
- Pressuger er kælivara og fæst í flestum stórmörkuðum. Nær undantekningarlaust er hægt að ganga að því í kælinum í Fjarðarkaupum. Þurrger fæst í öllum matvöruverslunum
- Ef notað er pressuger er gott að mylja það í skálina, bæta hluta af vökvanum saman við og hræra þar til gerið leysist upp
- Betra er að nota brauð- og pizzuhveiti við gerbakstur
- Til þess að finna rétta hitastigið á blöndunni er ráð að dýfa olnboganum aðeins ofan í – ef sami hiti er á blöndunni þá er hitinn nálægt 37°C
- Reynslan sýnir að af tvennu illu sé skárra að hafa mjólkurblönduna aðeins undir 37°C en yfir. Ef blandan er kaldari hægir það á hefingunni en of heit blanda getur eyðilagt hefinguna
- Mikilvægt er að setja klút (viskustykki) ofan á skálina í hefingu. Betra er að hafa klútinn rakan eða spreyja yfir hann vatni úr spraybrúsa
- Það skiptir máli að allt hráefnið sé við stofuhita. Kalt egg – beint úr ísskápnum – getur haft áhrif á hefingu
- Látið hefast á stað þar sem ekki er of svalt eða getur verið trekkur. Ekki hafa opna glugga nálægt deiginu eða hafa það nærri blæstri sem getur komið frá ofninum. Ef sólin skín er tilvalið að láta hana skína á klútinn. Eins má nýta hita sem kemur frá ljósi
- Athugið að deig í hefingu þolir illa hreyfingu og hristing og er það best geymt á rólegum stað. Muna að pensla varlega