Grillaður lax/silungur með sætum kartöflum, pistasíukurli og jógúrtsósu
Uppruni
Uppskriftin er heimatilbúin – góð og tiltölulega einföld. Kosturinn við hana er sá að hægt er að forvinna allt og þá er bara eftir að skella laxinum á grillið og hita kartöflublönduna.
Forvinna
Pistasíublönduna og jógúrtsósuna er hægt að laga daginn áður og sama má segja um kartöflurnar. Sætu kartöflurnar eru soðnar og gulræturnar bakaðar í ofninum.
Ath. Pistasíukurlið og sósan er yfirleitt frekar vinsæl og því gott að gera ríflega af því.
Hráefni
Lax
- 1½ kíló lax/silungur
- Lemon pepper
- Saltflögur
- Klípur af smjöri u.þ.b. 15 – 30 g
Pistasíukurl
- 60 g pistasíuhnetur
- ½ – 1 chili – gott að nota þurrkað eða ½ – 1 tsk chiliflögur
- 1 – 2 hvítlauksrif
- 1½ – 3 msk ferskur koriander
Jógúrtsósa
- U.þ.b. 250 g lífræn grísk jógúrt eða blanda af grískri jógúrt og hreinni jógúrt
- U.þ.b. 50 g Philadelphia – hreinn ostur
- Nokkrir dropar af sítrónusafa
- 1 tsk sojasósa
- 1 – 2 tsk sulta eða hunang (til að sæta)
- U.þ.b. 1 dl ferskur koríander
Sætar kartöflur og gulrætur
- 2 – 3 stórar sætar kartöflur
- 6 – 10 gulrætur
- 2 – 3 tsk Shawarma kryddblanda (t.d. frá Kryddhúsinu)
- ½ – 1 tsk steytt kardimomma
- Olía
- Saltflögur og nýmalaður pipar
Verklýsing
Sætar kartöflur og gulrætur
- Ofninn hitaður í 180°C
- Gulræturnar hreinsaðar, rifnar og settar í eldfast mót. Olíu hellt yfir og kryddað. Sett inn í ofn og bakað í 15 – 20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar – athuga að hræra í öðru hvoru
- Sætu kartöflurnar flysjaðar og skornar í sneiðar. Þær eru soðnar í u.þ.b. 10 – 12 mínútur, vatninu hellt af og sneiðarnar látnar kólna aðeins áður en þær eru skornar í litla bita. Ath. það má líka skera kartöflurnar strax í litla bita, setja í ofnskúffu og hella aðeins af olíu yfir. Látið bakast í ofninum í 30 – 35 mínútur
- Sætu kartöflunum blandað saman við gulræturnar, aðeins af olíu hellt yfir og blandað saman. Látið bakast í u.þ.b. 10 – 15 mínútur á meðan laxinn er grillaður
Pistasíukurl
- Chili og hvítlaukur sett í matvinnsluvél eða öflugan blandara nema pistasíuhnetur og kóríander – maukað gróft saman. Pistasíuhnetum bætt við og maukað aðeins – koríander bætt við og örlítið maukað
Ath. Ekki þvo blandarann/matvinnsluvélina á milli heldur útbúa jógúrtsósuna strax á eftir
Jógúrtsósa
- Öllu blandað saman í matvinnsluvélinni/blandaranum
Lax
- Ef borða á roðið þarf að skafa hreistrið af með hníf (frá sporði og upp úr). Laxinn skolaður og settur á álbakka
- Smjöri smurt á laxinn og piprað
- Grillið hitað og laxinn settur á heitt grillið. Grillað í 12 – 16 mínútur – fer eftir þykkt flaksins (bleikja þarf styttri eldunartíma)
- Pistasíukurli dreift yfir laxinn – saltflögum stráð yfir
Meðlæti
Alltaf gott að bjóða upp á salat með.
Sætar kartöflur og gulrætur í vinnslu
Pistasíukurl í vinnslu
Jógúrtsósa í vinnslu (í matvinnsluvél)
Jógúrtsósan gerð í blandara
Grillaður lax
Pönnugrillaður silungur