Pönnupizza úr súrdeigi

Súrdeigspönnupizza

 • Servings: fyrir 4
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Uppskriftin er að hluta til heimatilbúin en með hjálp netsins fékk ég aðstoð með aðferð við baksturinn. Pizzurnar eru léttar í sér þó að þær séu matarmiklar.  Mjög skemmtilegt að búa þessar pizzur til og vekja þær almenna lukku.

Forvinna

Súrdeigsgrunnur þarf að vera til í ísskápnum. Hægt er að gera súrdeigsgrunn á 3 – 7 dögum (sjá – Súrdeigsgrunnur) eða (sjá – Heimagerður súrdeigsgrunnur með eplum – tekur þrjá daga). Pizzan er sett tvisvar í ofninn. Í fyrra skiptið einhvern tíma yfir daginn og það seinna rétt áður en hún er borin fram.  Það getur komið sér vel ef baka þarf margar pizzur sem þurfa að vera tilbúnar á svipuðum tíma.

Hráefni

Deig

 • 3 dl súrdeigsgrunnur
 • 1 tsk þurrger
 • 2½ dl vatn (einnig er gott að nota mysu úr Heimagerðum mascarpone – einnig er hægt að blanda saman vatni og undarennu
 • 1 – 2 tsk saltflögur (má sleppa)
 • 2½ – 3 dl brauðhveiti og 3½ – 4 dl durum hveiti (má líka nota 6 – 7 dl brauðhveiti eingöngu)
 • Olía til penslunar

Álegg

 • Olía
 • 1 poki Mozzarellaostur
 • 1 poki Pizzaostur
 • Pizzusósa eða Heimagerð pizzusósa – einnig hægt að hafa hana sem meðlæti
 • Uppáhald hvers og eins á pizzu t.d. Pepperoni/skinka/ananas/sveppir o.fl.

Meðlæti

 • Rjómaostasósa: Mjúkum rjómaosti og sýrðum rjóma hrært saman til helminga
 • Tómatablanda: Blanda saman maukuðum tómötum og tómatpúrre eða nota Heimagerða pizzasósu (sjá – Aðalréttir – Sósur)
 • Basil

Verklýsing

 1. Súrdeigsgrunni, þurrgeri, volgu vatni (37°C) og salti blandað saman í skál
 2. Hveiti bætt við og hnoðað hratt í 10 mínútur þar til deigið verður teygjanlegt – passa að hrærivélin endi ekki á gólfinu – getur verið hreyfing á vélinni þegar hún hnoðar hratt
 3. Olíu penslað í skál og deigið sett í skálina (það er svolítið blautt og klístrað). Viskustykki eða plastfilma sett yfir skálina og látið hefast í 2 klukkustundir – má setja deigið í kæli til að draga úr hefingu – hefingartíminn lengist töluvert við það
 4. Deigið sett í stóra og djúpa olíuborna ofnskúffu u.þ.b. 32 x 38 cm. Deigið látið fylla út í og þá er gott að nota fingurna – fingrum ýtt léttilega hér og þar á allan botninn (sjá mynd). Við það myndast loft í deiginu
 5. U.þ.b. 1 – 2 msk. af olíu hellt yfir hér og þar. Plastfilma sett yfir og látið hefast í 2 – 3 tíma
 6. Ofninn hitaður í 270°C
 7. Mozzarellaosti dreift hringinn í kringum pizzuna – við endana og aðeins ýtt þar á – bara laust. Aðeins af mozzarellaosti dreift yfir alla pizzuna og einnig má setja örlítið af pizzaosti
 8. Pizzan sett í heitan ofn og látin bakast í u.þ.b. 10 – 12 mínúttur – eftir það má geyma pizzuna í einhvern tíma (gott að setja viskustykki yfir ef það eru nokkrar klukkustudir). Hefjast handa við næsta lið þegar stutt er í matinn
 9. Hráefni er valið eftir smekk hvers og eins – óþarfi að setja mikið álegg
 10. Pizzaosti dreift yfir í lokin og pizzan bökuð í u.þ.b. 10 – 12 mínútur – fylgjast með eftir u.þ.b. 8 mínútur þar sem ofnar geta verið misheitir

Hugmyndir að áleggi

Pizza án pizzasósu: Pepperoni og ostur. Pizzusósan sett eftir á ásamt rjómaostasósu og basil.

Pizza Heba: Pizzusósa, skinka, ananas og ostur.

Pizza Heimir: Pizzusósa, pepperóni, sveppir, rjómaostur og ostur.

Liður 2-3 

IMG_2182

Liður 4-5.  Hér er notað hringlaga form en pizzan sem tókst sérstaklega vel til með var 32×38 cm (sjá myndir neðst)

IMG_2183

Liður 5 – 7.  Deigið eftir 2 klukkustunda hefingu og eftir að mozzarellaostur var settur hringinn í kringum pizzuna
IMG_2184

Búið að setja mozzarellaost yfir alla pizzuna 

IMG_2188

Liður 8 – 9. Eftir fyrsta bakstur og beðið eftir seinni bakstri

IMG_2189

Ýmsar útgáfur af pönnupizzum

IMG_2251

Pönnupizza sem var komin að fyrri bakstri (fyrstu 7 liðir búnir). Hún var geymd í kæli í sólarhring. Tekin út og sett í heitan ofn þ.e.a.s. frá lið 8. Þessi pizza tókst mjög vel.

InstasizeImage

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*