Home » Bolla, bolla herm þú mér…

Bolla, bolla herm þú mér…

Semla með súkkulaðikeim

  • Servings: Magn: 24 bollur
  • Difficulty: meðal
  • Prenta

 

 

Uppruni

Hér kemur enn ein útgáfa af mínu uppáhaldi … sænskum semlum.  Nú erum við að tala um súkkulaðisemlur með heimagerðu heslihnetufyllingu sem er skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnu semlunum sem eru og verða alltaf þær bestu.  Og enn og aftur …. ef þið hafið ekki bakað þær … þá er algjörlega þess virði að gera það núna.

Ath.  Það má gera mismunandi útfærslu af súkkulaðisemlum.  Barnvæna útgáfan er að nota Nutella í staðinn fyrir hnetufyllingu.  Það er gott að velja hlutfall af magninu af hnetufyllingunni ef fleiri útfærslur af samsetningu eru í boði.  Einnig er hægt að bræða suðusúkkulaði í heitu vatnsbaði og setja ofan á bollurnar (eða setja bita af suðusúkkulaði ofan á heita bolluna og láta hann bráðna þar).

Hráefni

Semlur

  • 2½ dl mjólk
  • 150 g smjör
  • 1 bréf þurrger (12 g)
  • 1 egg – við stofuhita
  • 1 dl sykur
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk hjartarsalt
  • 4 msk kakó
  • 9-10 dl hveiti
  • 1 egg – til að pensla bollurnar

 

Hnetufylling

  • 100 – 200 g heslihnetur
  • 50 – 100 g suðusúkkulaði
  • 1 – 2 msk olía

 

Rjómafylling

  • 3 dl rjómi
  • 3 msk kakó
  • 4 msk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur – má sleppa

 

Verklýsing

Semlur

  1. Smjör brætt í potti
  2. Mjólk hellt út í og blandan látin vera ylvolg þ.e. 37°C. Egginu bætt við. Ath.  mér finnst ágæt regla að láta smjörið bráðna alveg á meðalhita (ekki alltof hratt) og næst að setja mjólkina út í – þá ætti hitastigið að vera í lagi (ekki hærra en 37°C).  Ég set eggið svo út í blönduna til að fá jafnt hitastig á allt hráefnið sem er fljótandi
  3. Ger, sykur, kakó, salt og hjartarsalt sett í hrærivélarskál. Mjólkursmjörblöndunni bætt við – ágætt að byrja á smá slurk og blanda öllu vel saman.  Þá leystist þurrgerið örugglega vel upp
  4. 4 dl af hveitinu hrært saman við með sleikju. Afganginum af hveitinu bætt við og hnoðað (í vél eða í höndum)
  5. Látið hefast í 10 mínútur – með klút yfir
  6. Deiginu skipt í 4 parta og svo aftur hverjum parti skipt í tvennt. Hverjum parti skipt í 3 parta og bollur mótaðar með höndunum.  Þannig verða bollurnar 24 – ef þið viljið hafa þær stærri má breyta skiptingunni
  7. Sett á ofnplötu með bökunarpappír.  Klútur (viskustykki) lagður yfir. Látið hefast í 1 klukkustund
  8. Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti).  Bollurnar penslaðar með hrærðu eggi og bakaðar í 7 – 9 mínútur

 

Hnetufylling

  1. Heslihnetur ristaðar á pönnu eða í miðjum ofni (á sama hita og bollurnar eru bakaðar í) í u.þ.b. 5 mín.  – hneturnar látnar kólna aðeins og hýðið hreinsað af (fínt að setja þær á milli lófanna og nudda aðeins … þá fer hýðið að mestu af). Hneturnar settar í blandara/matvinnsluvél og maukaðar gróft
  2. Suðusúkkulaði hitað í skál yfir heitu vatnsbaði
  3. Bræddu súkkulaði blandað saman við hnetumulninginn og olíu bætt við – hrært saman

 

Kakórjómi

  1. Kakó, flórsykur og vanillusykur sigtað saman og blandað saman við óþeyttan rjómann – þeytt
  2. Rjóminn settur í rjómasprautu eða skeið notuð til að setja á hverja bollu

 

Samsetning

  1. Það má leika sér með það hvernig bollurnar eru skornar.  Það má skera þríhyrning eða láta efri helminginn vera mun minni þannig að í báðum tilvikum er efri hlutinn eins og hattur – sjá myndir.  Sumir taka jafnvel aðeins úr efri eða neðri hlutanum þannig að hatturinn tolli betur (ekki nauðsynlegt).  Svo má bara líka skera bollurnar í tvennt
  2. Sumum finnst nóg að hafa súkkulaðirjómann en heslihnetufyllingin gerir mikið.  Mörgum finnst líka gott að nota Nutella og þá sérstaklega yngri kynslóðin
  3. Rjómafyllingin sett á milli eða sprautuð með rjómasprautu
  4. Fyrir súkkulaðifólkið er hægt að bræða suðusúkkulaði yfir heitu vatnsbaði og setja ofan á bollurnar.  Ein leið er líka að taka bita af suðusúkkulaði og setja ofan á bollurnar þegar þær eru nýkomnar úr ofninum.  En það er líka fallegt og gott að sleppa súkkulaðinu og strá aðeins af flórsykri yfir í lokin


 

Góð ráð við gerbakstur

  • Til þess að finna rétta hitastigið á blöndunni er ráð að dýfa olnboganum aðeins ofan í – ef sami hiti er á blöndunni þá er hitinn nálægt 37°C
  • Reynslan sýnir að af tvennu illu sé skárra að hafa mjólkurblönduna aðeins undir 37°C en yfir. Ef blandan er kaldari hægir það á hefingunni en of heit blanda getur eyðilagt hefinguna
  • Betra er að nota brauð- og pizzuhveiti við gerbakstur
  • Mikilvægt er að setja klút (viskustykki) ofan á skálina í hefingu. Betra er að hafa klútinn rakan eða spreyja yfir hann vatni úr spraybrúsa
  • Það skiptir máli að allt hráefnið sé við stofuhita. Kalt egg – beint úr ísskápnum – getur hægt  á hefingu
  • Látið hefast á stað þar sem ekki er of svalt eða getur verið trekkur.  Ekki hafa opna glugga nálægt deiginu eða hafa það nærri blæstri sem getur komið frá ofninum. Ef sólin skín er tilvalið að láta hana skína á klútinn. Eins má nýta hita sem kemur frá ljósi
  • Athugið að deig í hefingu þolir illa hreyfingu og hristing og er það best geymt á rólegum stað. Muna að pensla varlega

Geymsla

Bollurnar eru bestar nýbakaðar en líka mjög fínar daginn eftir.  Líka upplagt að setja þær í frystinn

 

Viltu skilja eftir athugasemd?

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*