Marineruð blálanga - þegar fiskur gerist varla betri
Uppruni
Þennan frábæra fiskrétt fékk ég í matarboði. Mörgum vikum síðar var ég ennþá að hugsa um réttinn og þá var bara ein leið í stöðunni… að næla sér í uppskriftina. Þennan fisk má bæði grilla á grillinu eða steikja á pönnu. Hönnupottur kemur að góðum notum ef fiskurinn er steiktur á pönnu. Þá er upplagt að snöggsteikja hann og síðan fullelda í pottinum í ofninum. Vökvinn sem kemur í botninn er frábær sósa með.
Meðlæti
Blálangan er frábær með hvítlaukskartöflustöppu og hvítlauksmajónesi. Þetta má allt útbúa töluvert áður og þá er eina sem eftir er að steikja fiskinn og velgja stöppuna á meðan fiskurinn er eldaður.
Forvinna
Fiskinn má setja í marineringu mörgum klukkum tímum áður. Þá finnst mér betra að setja boxið í kæli og taka svo út klukkustund áður en rétturinn er matreiddur.
Hráefni
- 1,2 kg blálanga
- 2½ msk Marokkóskt fiskikrydd frá Kryddhúsinu
- 2½ msk Fagur fiskur frá Kryddhúsinu
- Tæplega 2 dl góð olía
- 5 msk sítrónusafi
- 5 pressuð hvítlauksrif
- Góð lúka af ferskri smátt skorinni steinselju
- Salt og pipar
Verklýsing
- Allt hráefni nema fiskurinn sett í skál og blandað saman. Blálangan skorin í tvennt (ekki nauðsynlegt) og sett ofan í blönduna
- Marinerað í a.m.k 20 mínútur en helst klukkutíma … því lengur því betra
- Ofninn hitaður í 180°C
- Pannan hituð og fiskurinn snöggsteiktur á báðum hliðum. Fiskurinn lagður í Hönnupott eða pott sem þolir að fara í ofninn. Afgangi af marineringu er hellt yfir fiskinn, lokið sett á og inn í ofn í 10 – 12 mínútur. Ef fiskurinn er grillaður: Fiskurinn settur á heitt grillið og grillað á báðu hliðum
Meðlæti: Hvítlaukskartöflustappa og heimagert hvítlauksmajónes