Eftirréttur án vandræða
Uppruni
Ef þú átt von á gestum og hefur knappan tíma þá ætti þessi eftirréttur að eiga möguleika á að verða fyrir valinu. Hann gerir litlar kröfur en er mjög góður og skemmtilegt að bera hann fram. Botninn er bæði sérstaklega góður og einfaldur. Það má svo alveg leika sér með úfærsluna .. ef ég nota frosin ber þá hita ég þau og set undir kökuna en ef ég er með fersk þá raða ég þeim í kring. Mér finnst gaman að skammta á diska og bera þannig fram – verður aðeins meira spari.
Hráefni
Botn
- 2,5 dl hveiti
- 2 dl sykur
- 1/2 dl kakó
- 1 tsk vanillusykur
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 2 dl vatn
- 1/2 dl olía
- 2 tsk hvítvínsedik
Meðlæti
- 8 kókosbollur
- 2 – 3 dl rjómi
- Fryst ber eða fersk
- Skraut eins og mynta
Verklýsing
Botn
- Ofninn hitaður í 175°C (blástur). Bökunarpappír settur í botninn á 20 cm hringlaga smelluformi
- Þurrefnum blandað saman. Vatn, olía og edik hrært saman við þar til blandan verður kekklaus. Hellt í formið
- Kakan bökuð í 25 mínútur – látin kólna
- Kringlótt form er notað til að skera út 7 – 8 kökur (U.þ.b. 6 cm í þvermál – yfirleitt þarf að skeyta saman afskurðum þegar áttunda kakan er skorin út)
Samsetning
- Rjómi þeyttur
- Frosin ber sett í pott og suðan látin koma upp – tekið af hellunni
- Skraut: Það getur verið gaman að punta t.d. með mulningum sem kemur af kökunni. Þá tek ég aðeins af afskurðinum og sker hann í bita. Set á bökunarpappírinn, sem var notaður, og inn í ofn í 10 – 15 mínútur (100 – 150°C). Gott að fylgjast með og þegar afskurðurinn er orðinn stökkur er upplagt að setja það allt í mortel og mylja. Ath. þetta er alls ekki nauðsynegt heldur bara ef tími og nenna er fyrir hendi
- Mulningi stráð yfir diskinn. Berjablandan sett á miðjuna og kakan ofan á. Ef fersk ber eru notuð þá má raða þeim í kring. Slurkur af rjóma settur á kökuna og því næst ein kókosbolla. Borið fram
hráefni í kökuna
Stundum hef ég verið með aðeins meira maus og hellt svolítið af berjasafanum inn í kókosbolluna (gert gat á hana og hellt). Smá rjómi ofan á og eitt ber