Frjálslegt lúsíutré á aðventunni

Jólatré eða jólahringur með saffran

 • Servings: Magn: u.þ.b. 24 bollur
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Það er svo jólalegt að baka lúsíubollur á aðventunni.  Þessi útgáfa er með góðri fyllingu og þær má  gera í mismunandi útgáfum eins og t.d. sem krans, jólatré eða snúða… bara það sem hver og einn er í stuði fyrir. Ef biti er eftir er alveg upplagt að stinga honum í frystinn til að eiga með kaffisopanum.

Hráefni

Deig

 • 2 tsk þurrger
 • 2½ dl vatn (volgt en ekki heitara en 37°C)
 • ½ g saffran
 • 7½ – 8 dl hveiti
 • 1 dl sykur
 • ½ tsk salt
 • 1 egg
 • 80 g smjör – við stofuhita

Fylling

 • 75 g smjör
 • 1 dl púðursykur
 • ¼ tsk salt
 • 2 msk síróp
 • 2 msk maizenamjöl (eða rísmjöl)
 • 1 appelsína (eða 2 mandarínur) – börkur

Sykurlag

 • ¼ dl sykur
 • ¼ dl vatn

Glassúr

 • 1 – 1½ dl flórsykur
 • ½ – 1 msk vatn

 

Verklýsing

 

 1. Deig: Vatn og saffran blandað saman í hrærivélarskál. Saffranið látið leysast upp.  Afgangi af hráefnum blandað saman. Deigið hnoðað í 10 mínútur – deigið verður meira teygjanlegt þegar það er hnoðað svona lengi.  Skálin sett í kæli í 30 – 60 mínútur
 2. Fylling: Allt hráefni hrært saman þar til það hefur blandast vel
 3. Deigið flatt út í 70×15 cm stærð.  Fyllingunni smurt yfir og deigið rúllað upp
 4. Krans: Rúllan skorin/klippt þvert í sundur og rúlluð saman (sjá mynd) og þar næst er hringur myndaður.  Kransinn settur á smjörpappír
 5. Jólatré: Rúllan skorin í 24 jafna bita sem er raðað á smjörpappír svo að úr verði eitthvað sem líkist jólatré.  Það má alveg toga í endana og mynda stjörnu á toppnum en eins og með kransinn þá má þetta alveg vera smá frjálslegt
 6. Snúðar:  Þá er rúllunni skipt í 24 jafna bita og þeim raðað á smjörpappír (2 ofnskúffur).  Ath þá er bökunartíminn styttri eða u.þ.b. 5 mínútur
 7. Næsta skref er að leggja klút yfir meistarastykkið og láta það jafna sig í 1 klukkustund eða svo
 8. Ofninn hitaður í 200°C (blástur) og afraksturinn bakaður í u.þ.b. 14 – 18 mínútur.  Gott að fylgjast með síðustu mínúturnar
 9. Sykurlag: Sykur og vatn sett í pott og suðan látin koma upp.  Penslað með blöndunni á hringinn,  jólatréð eða snúðana um leið og það kemur funheitt úr ofninum
 10. Glassúr: Flórsykur og vatn blandað saman og dreift frjálslega yfir þegar lúsíubaksturinn (kransinn, tréð eða snúðarnir) hefur kólnað

Hráefni í deigið

Hráefni í fyllinguna

 

Deigið í vinnslu

Fylling í vinnslu

Deigið flatt út og fylling sett á

Rúllað upp

Krans í vinnslu

Sykurlag penslað á eftir baksturinn

Frjálslegt jólatré í vinnslu

Sykurlag pnslað yfir og svo er um að gera að skreyta með glassúr og einhverju jólalegu

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*