Smápítubrauð úr súrdeigi með smábuffum…

Smápítubrauð - þessi má geyma óbökuð í kæli

  • Servings: /Magn: 28 - 32
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni 

Ég hef yfirleitt notað bæði súrdeigsgrunn og ger þegar ég baka pítubrauð.  Þessi brauð eru hins vegar eingöngu með súrdeigsgunni og er notuð sama uppskrift og súrdeigsbrauð bakað með ást og umhyggju.  Það sem mér finnst frábært við þessa uppskrift er að hægt er að hafa bollurnar tilbúnar 1 – 2 dögum áður og geyma þær óbakaðar í kæli.  Þá er bara eftir að skella þeim á grillið.  Eins og svo oft áður með súrdeig má hagræða vinnsluferlinu eftir eigin þörfum og þegar þarf að hægja á hefingunni er bara að skella deiginu í kæli.  Smábuffin eru frábær með þessum brauðum en þau má einnig útbúa áður og geyma í kæli í 1 – 2 daga áður en þau eru grilluð. Sama má segja um pítusósuna   – hún hefur bara gott af því að standa og taka sig.  Pítubrauðin eru best nýbökuð þannig að það er best að baka þau um leið og þau eru snædd eða aðeins áður.  Smábuffin er svo grilluð jafnóðum þar sem þau eru best heit…. frábær réttur í veisluna ef einhver er til í að standa við grillið.

Forvinna

Bollurnar má búa til 1 – 2 dögum áður en þær eru grillaðar – geymdar í kæli.

Hráefni

  • 350 g vatn
  • 100 g súrdeigsgrunnur
  • 450 g hveiti
  • 50 g heilhveiti
  • 10 g salt
  • 25 g vatn
  • Rúgmjöl – þegar bollurnar eru mótaðar

Verklýsing

Ath – alltaf hægt að stjórna ferlinu með því að setja deigið í kæli og hægja á hefingu)

  1. Vatn sett í stóra skál og súrdeigsgrunnur settur út í (ath. flotprófið – sjá Súrdeigsgrunnur)
  2. Hveiti og heilhveiti bætt við og blandað saman með sleikju. Vatnið má ekki vera heitara en 26°C (alls ekki of heitt, frekar kaldara – ágætt að nota kjöthitamæli til að vera viss)
  3. Sleikja notuð til að hreinsa vel innan úr skálinni og deigið látið standa í 25 – 40 mínútur. Ekki sleppa þessum hluta – það er mjög mikilvægt í bakstursferlinu að deigið fái að ,,jafna“ sig
  4. Salti og 25 g af vatni bætt við. Hnoðað saman með hendinni í skálinni (sjá myndband fyrir neðan). Deigið sett í ílát
  5. Deigið látið hefast í 3 – 4 tíma í skál með klút yfir eða í plastíláti með loki. Gott að láta deigið standa þar sem ekki er trekkur – sérstaklega ef klútur er einungis notaður
  6. Eftir fyrstu hefingu er höndin notuð – gott að bleyta hana með vatni (þá loðir deigið síður við). Plastílátinu/skálinni snúið við og deigið látið falla á höndina og síðan ofan í ílátið aftur.  Þetta er endurtekið á 30 mínútna fresti í 2 – 3 tíma – tímasetningarnar mega vera smá frjálslegar.  Stundum hef ég svindlað og látið líða styttri tíma á milli lyftinganna. Ég hef jafnvel stundum látið nægja 2 tíma og lyft deiginu oftar
  7. Nú er deiginu hellt úr skálinni/ílátinu og sett á hreina borðplötu – best að nota rúgmjöl eða heilhveiti – bara aðeins til að hjálpa við að móta kúluna. Gott að nota brauðsköfu/sparslspaða við það (ekki nauðsynlegt). Eftir að kúla hefur verið mótuð er deiginu leyft að ,,jafna” sig í 20 – 30 mínútur. Á meðan flest hún aðeins út
  8. Deiginu er skipt í 28 – 30 jafna parta (gott að nota sköfuna til þess).  Til að bollurnar verði nokkuð jafnar að stærð er ágætt að skipta deiginu fyrst í tvennt og svo aftur í þrennt og svo aftur hver partur í tvennt og svo framvegis … má líka vigta en hver partur er u.þ.b. 30 g að þyngd.  Það er líka leyfilegt að vera frjálslegur og slumpa bara.  Píturnar mega líka vera færri og stærri
  9. Kúlurnar settar á bakka (mikilvægt að sigta rúgmjöl eða heilhveiti fyrst á bakkann) – rúgmjöl aðeins sigtað yfir og sett í kæli. Ekki er nauðsynlegt að setja klút yfir – bakkana má geyma í 1 – 2 daga í kæli. Það myndast smá hörð skorpa á bollurnar en það er allt í lagi
  10. Grillið hitað og kúlurnar teknar úr kæli.  Þá er ágætt að fletja hverja kúlu út fyrir sig aðeins lauslega  – alls ekki of mikið. Sett á heitt grillið og grillað þangað til fallegur litur kemur – snúið við (gott að loka grillinu á meðan brauðið grillast)
  11. Ágætt að leggja klút yfir þangað til brauðið er borið fram – skorið í brauðið og kjöt, grænmeti og sósa sett á milli

Meðlæti

T.d. Smábuff, grillaður halloumiostur, salat, rauðlaukur, paprika og pítusósa

Súrdeigssmápítubrauð í hefingu

Smápíta með grilluðum halloumiosti og grænmeti

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*