Funheitur kjúklingur í karrý – getur ekki klikkað

Hver vill ekki svona kjúkling í leirpotti?

  • Servings: 3 - 4
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Karrýréttir hafa alltaf verið vinsælir hjá börnunum og skorað hátt hjá heimilisföðurnum. Það lá því beinast við að þróa karrý kjúklingarétt eldaðan í pottunum góðu.  Það má alveg hafa réttinn aðeins sterkari eða daufari… bara eftir smekk hvers og eins.  Það má líka alveg sleppa tómötunum í lokin en ótrúlegt en satt þá er það húsbóndinn sem  ber ábyrgð á þeim. Fín uppskrift og því alveg gráupplagt að halda hlutföllunum á hreinu hér.

Hráefni

  • 1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri
  • Krydd eins og  t.d. Best á allt, eðal kjúkingakrydd, shawarma og/eða Miðausturlönd
  • Niðurskorið grænmeti – t.d. gulrætur, blómkál og/eða spergilkál – skorið í bita
  • Olía til steikingar
  • ½ – 1 laukur – skorinn smátt
  • 3 – 4 hvítlauksrif – pressuð
  • 150 – 200 ml kjúklingasoð (u.þ.b. 1½ – 2 tsk kjúklingakraftur)
  • 1 ferna kókosmjólk (250 ml)
  • ½ tsk cayenna pipar (ef þú vilt hafa þetta sterkt)
  • ½ tsk chilliflögur
  • 2 dl matreiðslurjómi
  • 1 msk sojasósa – má sleppa
  • 1 – 1½ msk karrý
  • 1 msk mangó chutney
  • 2 – 4 msk sósujafnari
  • 4 – 8 litlir ferskir tómatar – skornir í bita
  • Ferskt koríander eða steinselja – má sleppa
  • Salt og pipar

Verklýsing

  1. Ofninn hitaður 180°C – blástur
  2. Kjúklingalæri krydduð og þeim raðað í pottinn – ekki raða þeim ofan á hvert annað (þá getur eldunartíminn lengst)
  3. Potturinn settur inn í ofn í 30 mínútur – með lokinu á
  4. Á meðan kjúklingalærin eru að eldast í ofninum er sósan búin til. Pannan hituð með smá olíu – laukur og hvítlaukur steiktir á lágum hita í u.þ.b. 5 mínútur – karrý, chilliflögum og cayenna pipar bætt við (ef rétturinn á að rífa aðeins í)
  5. Ef gulrætur eru í réttinum er betra að sjóða þær fyrst í vatni í 3 – 4 mínútur. Vatnið sigtað frá og gulræturnar settar á  pönnuna – hrært
  6. Kjúklingasoði hellt á pönnuna ásamt kókosmjólk og matreiðslurjóma
  7. Mangó chutney og sojasósu bætt við ásamt sósujafnara. Nú er suðan látin koma upp – sósan má vera smá þykk þar sem hún þynnist þegar hún blandast við vökvann í pottinum
  8. Potturinn tekinn úr ofninum eftir 30 mínútur – spergilkáli og/eða blómkálsbitum dreift yfir kjúllann. Sósunni hellt yfir allt – sett aftur inn í ofninn með lokinu á í 15-20 mínútur.  Gott að taka lokið af síðustu 5 mínúturnar
  9. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tómatbitum dreift yfir ásamt niðurklipptri steinselju/kóríander (má sleppa)

 

Meðlæti:

Soðin hrísgrjón og salat.

 

Kjúlli fyrir og eftir steikingu í ofni

Sósan útbúin

Tilbúinn í ofninn

Beint úr ofninum

Hér er notað frosið blómkál og spergilkál (þiðnuðu í heitu vatni á meðan sósan var útbúin)

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*