Þristakossar

Makkarónur með sinn stíl og þristakremi

 • Servings: /Magn: 25 - 30 stk kossar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Dóttir mín hefur stundum verið að spreyta sig á makkarónubakstri – mér skilst að makkarónur og makkarónur séu ekki það sama.  Ég er búin að gera allnokkrar útgáfur með mismunandi árangri …. hér er ein útgáfa sem er ekki mjög pró en góð er hún… þar sem ég er ekki sérfræðingur í makkarónum kýs ég að kalla þessar kökur þristakossa.

Forvinna

Botnana má búa til nokkrum dögum áður og geyma í boxi svo að þeir harðni ekki.

Hráefni

 

Makkarónur

 • 3 eggjahvítur
 • 50 g sykur
 • 210 g flórsykur
 • 110 g möndlumjöl

 

Þristakrem

 • 150 g þristar
 • 1 tsk vatn
 • 1 tsk vanillusykur
 • 100 g smjör – stofuhiti
 • 1 dl flórsykur
 • 1 eggjarauða – stofuhiti

 

Verklýsing

 • Botnar
  1. Eggjahvítur settar í skál og þeyttar þar til kemur smá froða.  Hluta af sykrinum er blandað saman við og þeytt – meira af sykri bætt við og þeytt stutta stund. Afgangur af sykrinum settur út í og þeytt aðeins meira (u.þ.b. 30 sekúndur) – þá ætti blandan að vera tilbúin – varast að ofþeyta
  2. Möndlumjöli og flórsykri blandað saman og sigtað yfir marengsblönduna – það sem eftir verður í sigtinu er lagt til hliðar (má setja í blandara og mylja betur og svo aftur í sigtið). Sleikja notuð til að hræra létt saman – gott að fara vel niður í botninn og ná að lyfta blöndunni upp – sjá myndband
  3. Marengsblandan sett í sprautupoka og sprautað á smjörpappír í ofnskúffu. Búnir til 50 – 60 hringir sem eru 2 – 3 cm í þvermáli.  Það er smekksatriði hvað kökurnar eiga að vera stórar – mér finnst gott að hafa þær ekki of stórar (ath. kökurnar stækka eftir næsta lið)
  4. Um leið og búið er að fylla ofnplötuna er henni lyft upp og síðan látin falla. Þetta er gert til að taka toppinn, sem myndast eftir sprautuna (gengur ekki alltaf), og svo til að ná loftbólum úr marengsinum. Við þetta stækka kökurnar aðeins
  5. Makkarónurnar látnar jafna sig í 30 – 60 mínútur eða þangað til þær hafa náð að harðna – það á að vera hægt að koma við þær án þess að marengsinn klístrist við fingurinn)
  6. Ofninn settur á 140°C – blásturstilling
  7. Makkarónurnar látnar bakast í 11-14 mínútur – ein plata bökuð í einu

   

 • Þristakrem
  1. Þristar skornir í litla bita og settir í skál – hitað yfir vatnsbaði (vatn í pott og suðan látin koma upp). 1 tsk af vatni bætt við – þá bráðna þristabitarnir betur saman
  2. Athuga að taka smjörið úr kæli kvöldið áður og eggjarauðu eitthvað áður þar sem mjög mikilvægt er að sama hitastig sé á öllu hráefninu (annars getur kremið ystað). Smjör og flórsykur þeytt vel saman. Vanillusykri bætt við ásamt eggjarauðu – þeytt vel
  3. Þristablandan tekin af pottinum þegar hún hefur nokkurn veginn bráðnað – hrært vel í með sleikju.  Blandan má ekki vera of heit þegar henni er bætt saman við kremið.  Hún má heldur ekki verða of köld þar sem að þá getur verið erfiðara að blanda henni saman við.  Því er gott að hræra vel í blöndunni þegar þristabitarnir hafa að mestu leyti bráðnað og hræra þar til hitinn minnkar.  Þá er gott að taka smá slurk í einu og blanda saman við á meðan kremið er þeytt.   Ath.  ef lítið er sett í einu og þeytt aðeins á milli – þá ystar kremið síður.  (Ef illa gengur að blanda öllu saman (eins og það ysti) er hægt að setja kremið í örbylgjuofn í örfáar sekúntur og reyna svo að þeyta aftur)
  4. Gott að setja smjörkremið í rjómasprautu – ath. stútur þarf að vera það stór að lakkrísbitar stífli ekki.  Stundum er kremið smá mjúkt og þá er gott að kæla það í örustutta stund svo það sé auðveldara að sprauta því á kökurnar

  Samsetning

  1. Þristakrem sett á miðja kökuna (sléttu hliðina/botninn) og annarri þrýst á móti

   

 

Geymsla: Kökurnar geymast mjög vel í lokuðu boxi í kæli – það er samt betra að láta þær standa aðeins úti áður en bitið er í kökuna.

 

 

Botnar

Þristakrem

 

Gott er að láta kremið jafna sig aðeins – stundum þarf líka aðeins að kæla það 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*