Auðveld og góð súkkulaðikaka
Uppruni
Þessi kaka er vinsæl á heimilinu – hún er einföld og góð. Hér á bæ þykir best að borða hana með ís en mér finnst hún best með þeyttum rjóma. Kakan býður upp á ýmsa möguleika. Það er gaman að hafa hana heila, setja ís ofan á og skreyta með súkkulaðisósu og berjum. Einnig má skera hana niður í litlar kökur, setja ís ofan á og skreyta. Láta þá allar kökurnar saman á disk eða bara eina og eina á kökudisk og bera þannig fram. Ég baka oft þessa köku, skreyti hana ekki neitt og er hún góð á borðinu í nokkra daga – yfirleitt klárast hún fljótt en hún þarf ekki einu sinni að fara í kæli.
Forvinna
Betra er að baka kökuna eitthvað áður – sérstaklega ef setja á ís ofan á hana.
Hráefni
Botn
- 270 g hveiti
- 70 g kakó
- 1½ tsk lyftiduft
- 1½ tsk matarsódi
- 1 msk vanillusykur
- 1 tsk salt
- 180 g smjör – ósaltað og við stofuhita
- 420 g sykur
- 4 egg
- 3½ dl mjólk – volg
Verklýsing
Botn
- Ofninn hitaður í 175°C – (blásturstilling)
- Hveiti, kakói, lyftirdufti, matarsóda, vanillusykri og salti blandað saman í skál
- Smjör hrært í u.þ.b. 5 mínútur þar til það verður hvítt og loftkennt. Smörið skafið frá köntunum með sleikju
- Sykri bætt við og þeytt í 10 mínútur. Eggin sett út í – eitt í einu
- Volgri mjólkinni hellt saman við þurrefnin í skálinni – blandað vel saman
- Blöndunni bætt við smjörsykursþeytinginn – blandað vel saman með sleif og sett í 24 cm smurt smelluform eða bökunarpappír hafður í botninum
- Bakað í 50 – 60 mínútur – stungið í kökuna með prjóni til að athuga hvort hún sé bökuð
- Kakan látin kólna
Skreyting – hugmyndir
- Ef skera á kökuna í litlar kökur er best að finna hæfilega stóran hring (ef ekki er til álhringform má nota skál eða glas og skera meðfram hliðunum með hnífi
- Kökuna þarf ekki endilega að skreyta en ís, þeyttur rjómi, súkkulaðisósa (t.d. heitri súkkulaðisósu), ávextir, ber eða nammiskraut á allt mjög vel við – nota bara hugmyndaflugið
Geymsla
Kakan geymist vel við stofuhita undir glerloki í 2 – 3 daga. Hún geymist vel í frysti en er þá sett í plastpoka.
Kakan skorin í litla kökubita
Litlir kökubitar með ís….











