Þorskhnakki með humri og saffransósu

Þorskhnakki með humri og saffransósu

  • Servings: 5 - 6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Mér finnst mjög skemmtilegt að útbúa rétti sem líkjast þeim sem hægt er að fá á veitingahúsum. Ég raða sjálf á diskana og ber réttinn þannig fram. Þessi er heimatilbúinn en uppskriftina að sósunni fékk ég hjá fósturpabba mínum. Hann hefur þróað hana í gegnum árin með humrinum sem þau eru alltaf með í forrétt á gamlársdag.  Rétturinn er mjög góður og gaman að hafa í matarboði, saumaklúbbi eða bara þegar gera á vel við sig.  Hann er frekar fljótlegur og þægilegur.  Það má segja að sósan sé toppurinn yfir i-ið.

Forvinna

Upplagt að útbúa græna baunamaukið og sósuna eitthvað áður.  Best að taka humarinn úr frysti daginn áður og láta hann þiðna í kæli yfir nótt.

 

Hráefni

Sósa       

  • 2 dl grunnur (Grunnur: Humarskeljar og u.þ.b. 3 – 4 dl vatn)
  • 1 dl hvítvín
  • ½ dl hvítvín
  • 10 – 15 safranþræðir
  • 1 msk humarkraftur (fljótandi)
  • 2 dl rjómi
  • Hvítur pipar og salt
  • 1 – 2 msk sósujafnari (helst ljósan)

 

Fiskur

  • 1 – 1,1 kg þorskhnakki, langa eða sambærilegur fiskur
  • Hveiti
  • Salt og pipar
  • Smjör til steikingar
  • 6 – 8 humarhalar

 

Grænt baunamauk

  • 3 – 4 dl frosnar grænar baunir
  • U.þ.b. ½ dl rjómi
  • Salt og pipar
  • Smjörklípa

 

Perlubygg

  • 3 – 4 dl perlubygg
  • 6 – 8 dl vatn
  • Ögn af salti

 

Verklýsing

Sósan

  1. Mér finnst best að byrja á sósunni þar sem hún má alveg bíða.  Grunnurinn er útbúinn með því að hreinsa humarinn (setja humarinn í kæli á meðan sósan er útbúin) og skeljarnar settar í pott ásamt vatni – gott að láta vatnið fljóta yfir.  Suðan látin koma upp og soðið við vægan hita í u.þ.b. 15 – 20 mínútur
  2. Safran og ½ dl af hvítvíni sett í skál í u.þ.b. 10 – 15 mínútur (það er sagt að saffranbragðið komi betur fram ef því er blandað saman við vín – ekki síst sterkt áfengi). Gott að nota tímann og undirbúa græna baunamaukið eða fiskinn á meðan grunnurinn sýður
  3. Soðið sigtað frá og sett aftur í hreinan pott ásamt hvítvíninu, humarkraftinum og saffranvökvanum – suðan látin koma upp.  Hiti lækkaður og rjóma bætt við ásamt, pipar og salti
  4. Nú er ágætt að láta sósuna standa á meðan fiskurinn, byggið og græna baunamaukið er matreitt. Ef einhver vökvi kemur af fiskinum eða humrinum er gott að setja hann í sósuna
  5. Þegar fiskurinn er settur í ofninn er ágætt að bæta sósujafnaranum við og láta suðuna koma upp (þá hverfur bragðið af sósujafnaranum)

 

Grænt baunamauk

  1. Vatn og ögn af salti sett í pott – hitað að suðu. Grænar baunir (frostnar) settar í sjóðandi vatnið og látið sjóða í 4 mínútur
  2. Örlítið af grænu baununum lagt til hliðar – afgangurinn settur í blandara eða matvinnsluvél og maukað. Smjöri bætt við ásamt smá af rjóma, salti og pipar.  Lok sett yfir og geymt þar til bera á fram (ef maukið er gert löngu áður er ágætt að velgja það aðeins aftur)

 

Perlubygg

  1. Vatn léttsaltað og hitað að suðu.  Perlubyggið sett út í og soðið á lágum hita í 20 mínútur.  Það má alveg láta perlubyggið standa aðeins áður en það er borið fram

 

Fiskur

  1. Ofninn hitaður í 150°C (yfir og undirhiti)
  2. Fiskurinn skorinn í bita – u.þ.b. 150 – 180 g.  Hveiti sett á disk og fiskinum velt upp úr því
  3. Panna hituð á tiltölulega háum hita – smjör brætt en ekki látið brenna (ágætt að blanda olíu líka saman við) og fiskbitarnir snöggsteiktir á öllum hliðum. Bitarnir settir í eldfast mót, salt og pipar stráð yfir og síðan inn í ofn í u.þ.b. 5 – 6 mínútur.  (Ath. Gott að miða við að setja fiskinn inn u.þ.b. 15 mínútum áður en hann á að vera tilbúinn)
  4. Fiskurinn tekinn út úr ofninum og stillingu á ofninum breytt í grill.  Beðið þar til hitanum er náð – humrunum raðað á fiskbitana og grillað í 4 – 6 mínútur (háð stærð á humri)

 

Framreiðsla (á stórt fat eða á disk fyrir hvern og einn)

  1. Græna baunamaukið tekið með skeið og dreift á diskinn – hringur á hann miðjan. Þetta má vera mjög frjálslegt (sjá mynd)
  2. Perlubyggið sett í miðjuna
  3. Fiskbiti er lagður ofan á byggið og sósu hellt yfir. Örlitill pipar mulinn yfir, saltflögum stráð yfir og skreytt með nokkrum grænum baunum

 

 

Grunnur gerður:

img_0925

Sósan 
img_0929img_7522

Grænt baunamauk

img_0928

 

Fiskur steiktur og bygg soðið

img_0813

img_0936

Fiskur settur í eldfast mót og meðlæti að verða tilbúið

img_7523

Humarinn snyrtur og lagður ofan á fiskinn 

img_0926

 

Samsetning

img_0814

 

img_0811

img_0937

Þennan rétt er gott að eiga sem afgang

img_0807

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*