Kjötsúpan góða – uppáhaldið hans Huga

Kjötsúpan góða - uppáhaldið hans Huga

 • Servings: fyrir 4-6
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þegar hann Hugi hélt upp á 9 ára afmælið sitt fékk hann að velja matseðilinn og var kjötsúpa efst á óskalistanum þó að varla væri farið að hausta. Hann réð ömmu sína í verkið og tókst vel til. Greinilegt að börnin eru búin að fá nóg af pizzum í afmælum og hafa þau oft beðið um allt annað eins og hakk og spagetti og kjötsúpu. Það er misjafnt hvað sett er í súpuna – ömmur hans Huga setja alls ekki það sama en honum finnst þær báðar svo góðar. Ákvað að blanda uppskriftum þeirra saman – það ætti ekki að klikka!

Forvinna

Súpuna er hægt að gera daginn áður og er hún jafnvel betri þannig.

Hráefni

 • 1 kg lambakjöt – ca 4-5 fallegar frampartssneiðar
 • U.þ.b. 500 g rófur – afhýddar og skornar í stóra bita
 • U.þ.b. 300 g gulrætur – afhýddar, ef með þarf, og skornar í bita
 • U.þ.b. 250 g kartöflur – afhýddar og skornar í tvennt
 • 1 blaðlaukur (má sleppa) – skorinn í sneiðar
 • 1 stilka sellerí ( má sleppa) – skorin í þunnar sneiðar
 • 1 laukur (má sleppa) – skorinn í sneiðar
 • 1 dl hrísgrjón (má sleppa)
 • 60 g súpujurtir – ef mikið er sett af fersku grænmeti þarf minna af súpujurtum
 • Salt og e.t.v. timjan

Verklýsing

 1. Kjötið snyrt og sett í súpupottinn. Vatn látið fljóta yfir. Staðið við pottinn þangað til suðan kemur upp – froðan fleytt ofan af
 2. Soðið í u.þ.b. 30 mínútur við vægan hita (ekki bullsjóða)
 3. Allt grænmetið, hrísgrjón og krydd sett í pottinn og látið sjóða með kjötinu við vægan hita í 30 mínútur. Rófurnar þurfa aðeins lengir suðu – það má því skella þeim í aðeins á undan. Vatni og salti bætt við eftir þörfum
 4. Kjötið veitt upp úr súpunni, látið kólna aðeins og skorið niður í litla bita (skemmtilegra þegar borið er fram en ekki nauðsynlegt). Sett út í súpuna aftur – hitað aðeins og súpan er tilbúin

Kjöts1

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*