Kartöflusalat með dilldressingu
Uppruni
Þessa einföldu og góðu útgáfu af kartöflusalati sá ég í sænsku blaði. Salatið passar bæði með grillkjöti og grilluðum silungi. Það vill svolítið loða við mig að skella því sama á grillið og finnst því gaman að hafa tilbreytingu í meðlætinu. Það er töluverð sósa í salatinu og fyrir mitt leyti kemur það líka í stað sósu sem er klárlega aukabónus.
Hráefni
- 900 – 1000 g kartöflur
- 2 – 3 vorlaukar, 1 salatlaukur eða sambærilegt – skorið í þunnar sneiðar
- Salat – tegund og magn er smekksatriði
- Ferskt dill til skreytingar
Drilldressing
- 1 dl ólífuolía
- 1 – 2 hvítlauksrif
- 1 – ½ msk hvítvínsedik
- 1 msk kapers – saxað
- U.þ.b. 2 dl ferskt dill. Það er skemmtilegra að nota ferskt dill en má alveg nota þurrkað en þá bara miklu minna af því (2 – 4 msk)
- 1 tsk hunang
- 1 dl majónes
- Salt og pipar
Verklýsing
- Karöflur soðnar í léttsöltuðu vatni. Suðan látin koma upp og látið krauma í 20 mínútur. Kartöflurnar látnar kólna – ef þær eru nýjar og líta vel út er óþarfi að flysja þær
- Dilldressing: Kapers saxað smátt og öllu blandað saman nema majónesinu. Það er sett í lokin og pískað saman við. Smakkað – saltað og piprað aðeins
- Kartöflurnar skornar í tvennt eða fernt og settar í stóra skál – blandað saman við dilldressinguna
- Ferskt salat sett í fat eða skál og kartöflusalatinu hellt saman við
- Skreytt með lauksneiðum og fersku dilli. Fallegt að mylja aðeins pipar yfir í lokin
Gott með: Grilluðu kjöti og lax/silungi
Hráefni…