Ferskt og gott rauðrófu carpaccio
Uppruni
Það er ekki oft sem kjötfólkið mitt tekur grænmetisútgáfu af kjöti í sátt … en það á einmitt við um þennan rétt. Þennan ferska og góða rétt kemur frá henni Drífu og má undirbúa daginn áður … þá er bara samsetningin eftir. Ég baka rauðrófurnar í Hönnupotti en það má líka nota samskonar pott. Rétturinn er tilvalinn sem forréttur eða á smáréttaborðið. Ef geitaosturinn fellur ekki í kramið er minnsta málið að skipta honum út og nota t.d. mascarponeost. Þessi réttur er geggjað góður.
Forvinnsla
Rauðrófurnar má baka 1 – 2 dögum áður og geyma í kæli. Það sama má segja um gljáann og salatdressinguna.
Hráefni
- 2 – 3 meðalstórar rauðrófur (u.þ.b. 500 g / 400 g flysjaðar)
- 1 tsk saltflögur (fyrir hverja rauðrófu)
Gljái
- 50 g púðursykur
- 75 ml vatn
- ¼ appelsína – safi
- 2 tsk balsamic
- 10 g smjör
Salat dressing
- 5 msk góð ólífuolía
- 3 – 5 dropar sítrónusafi
- ½ tsk dijon sinnep
- Nokkrar saltflögur
Geitaostasósa
- 150 g Geitaostur (Chavroux geitaostur) eða Mascarponeostur
- ½ – 1 tsk hunang
- Ögn af salti
Samsetning
- Ristaðar furuhnetur
- Parmesanostur
- Klettasalat
- Ólífuolía
Verklýsing
Rauðrófur
- Ofninn hitaður í 180°C (blástur)
- Rauðrófur flysjaðar og settar í Hönnupott eða annað lokað ílát sem þolir að fara í ofn. Salti stráð yfir og bakað í 50 – 60 mínútur eða þar til rauðrófurnar eru bakaðar í gegn. Bökunartíminn fer svolítið eftir stærð þeirra en ágætt að stinga prjóni í gegn til að kanna hvort þær séu tilbúnar. ATH. Það er betra að hafa þær aðeins minna en meira bakaðar. Þær verða skornar mjög þunnt og betra að skera þær þannig. Ef pottur er ekki til má vefja rauðrófunum inn í álpappír en passa að loka vel þar sem vökvi getur lekið úr þeim þegar þær eru bakaðar þannig
- Rauðrófurnar teknar út og látnar kólna (stofuhita). Ef þær eru eldaðar daginn áður og geymdar í kæli yfir nótt er gott að taka þær tímanlega út svo þær nái stofuhita
Gljái
- Hráefni sett í pott og hitað að suðu – soðið þar til blandan hefur rýrnað um helming og orðin þykkri
- Gjáinn látinn kólna
Salatdressing
- Dijon, salti, olíu og ediki blandað saman í skál – gott að nota písk
Geitaostasósa
- Geitaostur og hunang sett í skál og hrært saman með písk. Aðeins saltað
- Sósuna má setja í rjómasprautu (eða nota bara skeið til að dreifa yfir)
Samsetning
- Furuhnetur ristaðar á pönnu – þar til kemur fallegur litur. Lagðar til hliðar
- Rauðrófur skornar niður í örþunnar sneiðar – mikilvægt að þær séu mjög þunnar. Gott að nota niðurskurðartæki (eins og Mandolín) svo að þær séu sem þynnstar og allar jafn þunnar
- Sneiðunum raðað fallega á disk og gljáanum penslað yfir
- Doppur af geitaosti settar með skeið eða sprautað yfir hér og þar
- Salatdressingu blandað saman við klettasalatið og dreift yfir
- Nokkrum dropum af góðri ólífuolíu dreift aðeins yfir hér og þar
- Ristuðum furuhnetum stráð yfir og að lokum niðurrifnum parmesanosti
Rauðrófur í vinnslu
Sósa sett á … vinstra megin geitaostasós/hægra megin mascarponesósa
Salatdressing hellt yfir klettasalatið
Sæl. Þetta er uppáhaldsmatarvefurinn minn. Hvar fékkstu þessar ílöngu rauðrófur?
Kv. Ásta
Sæl Ásta og gaman að heyra <3
Afsakið sein svör - það er eitthvað vesen á commentakerfinu hjá mér. Ég fékk þessar rauðbeður á sínum tíma í Krónunni 🙂
Kveðja, Hanna