Súperbolta snúðahringur – hittir beint í mark

Snúðahringur með lakkrís

 • Servings: /Magn:16 - 18 snúðar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Hvað gerir miðaldra kona sem finnst lakkrís mjög góður en vill forðast að gúffa í sig heilum poka…. hún notar hann í bakstur.  Hér kemur uppskrift að snúðahring – hægt er að gera hann tilbúinn að kvöldi – setja hann í kæli og baka næsta morgun.  Sáraeinföld leið til að hefja daginn á nýbökuðum snúði með dassi af lakkrís.

 

Hráefni

 • 3 tsk þurrger
 • 1 egg
 • 1 dl vatn
 • 2 dl mjólk
 • 2½ msk sykur
 • 1 tsk saltflögur
 • 8 dl hveiti
 • 100 g smjör

Fylling

 • 150 g Súperboltar frá Kólus (einnig er gott að nota Þrista)
 • 50 g smjör – við stofuhita
 • 1 egg til að pensla með
 • Flórsykur

Verklýsing

 1. Smjör sett í pott og látið bráðna.  Þegar smjörið hefur bráðnað er potturinn tekinn af hellunni – mjólk og vatni blandað saman við ásamt egginu.  Þá ætti blandan að vera mátulega heit (hún má alls ekki vera heitari en 37°C)
 2. Ger, sykur, salt sett í skál og mjólkurblöndunni blandað saman við
 3. Hluti af hveitinu er settur út í (ágætt að hræra fyrst með sleikju).  Afgangi af hveiti blandað saman við og deigið hnoðað í 5 mínútur
 4. Klútur settur yfir og deigið látið hefast (þar sem ekki er trekkur) í 1 klukkustund (allt í góðu þó það verði 2 klukkustundir)
 5. Deigið sett á borðplötu og flatt út í ca 25×40 cm
 6. Smjör brætt í potti og súperboltarnir saxaðir frekar smátt.  Smjörinu dreift yfir með sleikju og því næst er söxuðum súperboltum dreift yfir
 7. Rúllað upp og togað í báða enda. Skorið í 16 – 18 jafnstóra bita og þeim raðað í ofnskúffu með bökunarpappír.  Til þess að bitarnir séu jafnstórir er gott ráð að skipta lengjunni fyrst í tvennt og svo hvorum hluta aftur í tvennt og síðan koll af kolli þar til bitarnir eru orðnir 16 – 18.  Bitunum raðað saman í hring og skurðendinn látinn snúa upp.  Klútur settur yfir og látið hefast í 30 – 45 mínútur.  Ef bjóða á upp á nýbakaða snúða í morgunsárið er bökunarplatan sett í kæli og tekin út um morguninn um leið og kveikt er á ofninum (jafnvel aðeins fyrr)
 8. Ofninn stilltur á 225°C (yfir- og undirhiti)
 9. Egg pískað og penslað yfir hringinn.  Bakað í 15 – 20 mínútur
 10. Látið kólna aðeins og sigtuðum flórsykri stráð yfir

 

 

 

Látið hefast í skálinni eða í lokuðu plastboxi 

 

Snúðahringur með söxuðum þristum

 

Snúðahringur  búinn að vera í kæli yfir nótt

 

Snúðahringur með þristum

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*