Asískt soðbrauð – gott með kjöti eða grænmeti

Asískt soðbrauð - einfalt og gott

 • Servings: /Magn: 14 - 20 brauð
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þar sem mér þykja asísk soðbrauð mjög góð hefur mig  lengi langað til að spreyta mig á þeim.  Um daginn var ég með afgang og datt í hug að henda því á pönnu og setja svo í svona brauð.  Þurfti bara að fara og kaupa Bamboo Steamer (fæst t.d. í Fiska) til að sjóða brauðin í en svo var þetta einfalt.  Nú á ég bara eftir að æfa mig í að hafa brauðin fallegri en bragðið er það sama og þá er tilganginum náð.  Raunverulega er alveg stórsniðugt að nota þessi brauð til að nýta afganga.  Hver og einn getur verið með það grænmeti sem hann vill og svo sterka eða milda sósu.  Einnig er líka hægt að elda kjöt eins og pulled pork, andalæri, tofu, halloumiost eða bara það sem hverjum og einum dettur í hug og setja ofan í brauðin.  Það er smekksatriði hversu stór brauðin eiga að vera – ég miða við að koma þremur fyrir á hverja hæð þegar ég sýð þau.

Forvinna

Deigið má búa til nokkrum dögum áður og geyma í kæli.   Ath. Það geymist í marga daga í kæli.  Ágætt að taka það út aðeins áður en á að nota það. Taka það úr plastpokanum/skálinni og leyfa því að jafna sig aðeins áður en brauðin eru mótuð.

Hráefni

 • 2 tsk pressuger
 • 2½ dl volgt vatn (ekki heitara en 37°C)
 • 1 msk sykur
 • 1 msk olía
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk lyftiduft
 • 5 dl hveiti
 • Olía til að pensla á brauðin

Verklýsing

 1. Vatni, geri, sykri og olíu blandað saman í skál – ágætt að láta allt leysast vel upp í 2 – 3 mínútur
 2. Hveiti, salti og lyftidufti blandað saman við og hnoðað í 5 mínútur.  Klútur lagður yfir skálina og látið hefast í 1 klukkustund
 3. Deigið lagt á hveitistráð borð og skipt í 14 – 20 bita (smekksatriði hversu stór brauðin eiga að vera)
 4. Bökunarpappír klipptur til þannig að hann passi fyrir eitt brauð. Hver biti flattur út með fingrunum eða kökukefli – olía smurð á hliðina sem snýr upp.  Rör lagt á miðjuna og brauðið lagt saman og sett á bökunarpappír.  Brauðin sett á bakka eða í ofnskúffu/bretti með klút yfir – látið jafna sig í 10 mínútur
 5. Vatn sett í pott og bastið ofan á.  Það er með sama þvermál og potturinn – hitað að suðu.  Þegar vatnið er farið að sjóða eru u.þ.b. þrjú brauð sett á hverja hæð (bökunarpappírinn er látinn fylgja með), lokið sett á og brauðin soðin í gufunni í 5 mínútur.  Vatnið á að sjóða í þessar 5 mínútur
 6. Þá er slökkt á hellunni eða potturinn tekinn af og brauðið tekið úr hringjunum (ágætt að nota spaða svo maður brenni sig síður) Ath. varast að brenna sig á gufunni þar sem hún er mjög heit. Þegar brauðin hafa verið tekin úr bastkörfunni er mikilvægt að losa bökunarpappírinn strax frá (annars festist hann við brauðið).  Potturinn settur aftur á helluna eða kveikt á henni – ný brauð sett í körfurnar og soðin í 5 mínútur
 7. Brauðin eru best nýsoðin en líka fín daginn eftir – þá er gott að velgja þau aðeins í örbylgjuofninum eða brauðristinni

Meðlæti – hugmyndir: Auðvelt og fantagott andasalat  – sleppa salatinu og steikja eingöngu öndina og bera fram með brauðinu, gúrku, púrru og hoisinsósu.  kjúklingur sem rífur aðeins í  – þá má alveg sleppa hnetunum og hægt að minnka aðeins sósuna.  Afgangur af kjúklingi eins og t.d. heilsteiktur kjúklingur og fisk- eða grænmetisréttum… bara um að gera að nota hugmyndaflugið 🙂

 

Hráefni

 

 

 

 

 

 

Brauðið er gufusoðið í Bamboo Steamer

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*