Auðvelt og fantagott andasalat

Veislumatur gerist ekki einfaldari

 • Servings: 2 - 3
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Þetta salat fékk ég hjá Gyðu og fannst mér það alveg sérstaklega gott.  Ef von er á gestum og lítill tími til stefnu er þetta klárlega rétturinn.  Hægt að vinna sér í haginn með því að sjóða grjónin fyrr um daginn og þá er lítið annað eftir en að hita kjötið og blanda hráefnunum saman.  Það er misjafnt hversu mikið salat er notað og eins vilja sumir hafa meira kjöt ..  það má því alveg fara frjálslega með magnið en ef notuð er heil stór dós af niðursoðnum andalærum má tvöfalda magnið af kínverska 5 kryddinu, engiferinu og hrísgrjónaedikinu.

Forvinna

Sjóða hrísgrjónin.

Hráefni

 • 2 – 3 niðursoðin andarlæri
 • 1 tsk ferskt engifer – rifið fínt
 • 1 tsk kínverskt 5 krydd
 • 1 msk hrígrjónaedik

 

Salat

 • ½ – 1 dl hrísgrjón t.d. hýðishrísgrjón
 • ½ – 1 appelsína eða 2 mandarínur
 • 3 – 4 msk granatepli
 • Salatblöð
 • Salatdressing t.d. olía og safi úr ½ sítrónu blandað saman (einnig má setja balsamicedik í stað sítrónu)
 • Saltflögur og pipar

Verklýsing

 1. Lærin tekin upp úr fitunni og hún lögð til hliðar (ekki henda fitunni – frábært að eiga hana í kæli þegar steikja skal kartöflur í ofni). Andalærin beinhreinsuð (það er ágætt ráð að leggja lærin örstutt í heitt vatn svo að fitan renni betur af).  Ögn af olíu er sett á pönnuna og hún hituð.  Rifnu engiferi dreift yfir og kjötið sett á pönnuna ásamt kínverska 5 kryddinu. Hrært saman – ágætt að hafa góðan hita á pönnunni
 2. Hrísgrjónaediki bætt við í lokin – hrært
 3. Ef kjötið er steikt í svolítinn tíma verður kjötið spröd (stökkt) og molnar svolítið í sundur.  Sumum finnst það betra.  Þar sem kjötið er feitt má leggja það á eldhúspappír til að hann dragi í sig svolítið af fitunni áður en kjötinu er blandað saman við salatið.  Það er hins vegar smekksatriði og þarf síður ef náðst hefur að hreinsa mest af fitunni í byrjun
 4. Salat: Salatblöð sett á disk ásamt hrísgrjónum, appelsínusneiðum/bitum og granateplum
 5. Kjötið sett yfir og því næst er olíu og sítrónusafa blandað saman og hellt yfir salatið – saltað og piprað. Best að blanda öllu saman rétt áður en það er borið fram

 

Meðlæti: Mjög gott með nýbökuðu súrdeigsbrauði eða asísku soðbrauði.

Hráefnið í kjötið

 

Fitan lögð til  hliðar…

Sett aðeins í heitt vatn…

 

Lögð á eldhúspappír

 

Hrísgrjónaediki bætt við í lokin..

Hráefni fyrir salatið

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*