Þessi bomba svíkur engan….

Súkkulaðisæla með hindberjum og marengs

  • Servings: Magn/: u.þ.b. 10 sneiðar
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni
Þessi kaka er í miklu uppáhaldi þessa dagana en hún er bæði einföld og góð.  Það má klárlega mæla með þessari bombu.

 

Forvinna

Kökuna má búa til daginn áður.

 

Hráefni

Botn

  •  100 g suðusúkkulaði – saxað
  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 2 dl muscovadosykur eða púðursykur
  • 2 dl hveiti
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanillusykur
  • ¼ tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 2 msk hunang
  • 50 g hindber – frosin eða fersk

 

Súkkulaðimarengs

  • 75 g suðusúkkulaði – brætt
  • 3 eggjahvítur
  • 1½ dl sykur
  • ¼ tsk vodki eða bacardi
  • 1 msk maizenamjöl

Verklýsing

  1. Ofninn hitaður í 175°C (blástur)
  2. Smjör brætt í potti. Súkkulaðibitunum bætt við smjörið og blandað saman
  3. Hveiti, kakói, vanillusykri, lyftidufti og salti blandað saman í skál
  4. Egg og muscovadosykur/púðursykur þeytt vel saman þar til blandan verður létt og ljós
  5. Súkkulaðiblöndunni blandað varlega saman við og loks þurrefnunum (ágætt að sigta þau ofan í)
  6. Sett í 24 cm smelliform með bökunarpappír í botninum.  Hindberjabitarnir settir hér og þar í deigið.  Bakað í 12 – 20 mínútur (mér finnst betra að hafa hana minna bakaða) – tekið úr ofninum og hunangi hellt yfir
  7. Látið standa úti í 15 mín… nú er flott að byrja á marengsinum
  8. Súkkulaðimarengs Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt við jafnóðum. Ágætt að þeyta eggjahvíturnar aðeins fyrst og bæta svo sykrinum rólega saman við.  Vodki/barcardi sett út í – þeytt og   maizenamjöli bætt við í lokin (gott að hægja aðeins á þeytingunni svo að mjölið gusist ekki út um allt)
  9. Bræddu súkkulaði blandað lauslega saman við – á ekki að blandast of mikið saman
  10. Kakan sett aftur í ofninn í 15 mínútur eða þangað til kominn er smá litur á marengsinn.  Kakan látin kólna og tekin úr frominu

Gott með: Þeyttum rjóma eða ís

 

Hunangi dreift yfir…. á hægri myndinni eru hindber bara á hálfri kökunni – gert fyrir gikkina á  heimilinu

 

Marengs í vinnslu

 

Kakan getur verið smá mjúk –  ef erfitt er að ná kökunni af er ágætt ráð að … rúlla annarri brúninni á bökunarpappírnum inn undir kökuna og renna henni þannig yfir á kökudiskinn

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*