Skemmtilega rautt súrdeigsbrauð

Súrdeigsbrauð með rauðbeðusafa

 • Servings: /Magn: 1 brauð
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Mér finnst alltaf gaman að gera nýjar tilraunir með súrdeigsbrauð.  Þetta brauð er skemmtilega öðruvísi og liturinn er flottur.  Rauðbeðusafinn gefur ekki mikið bragð en brauðið er þéttara í sér en súrdeigsbrauð bakað af ást og umhyggju enda með aðeins grófara hráefni.  Það þarf ekki að vera flókið að baka súrdeigsbrauð – það eina sem skiptir máli er að gefa sér nægan tíma til að láta deigið hefast.  Svo er minnsta málið að setja deigið, þegar 4 – 5 tímar eru liðnir af seinni hefingu, í ísskápinn og þar má það vera í nokkra daga.  Þá er bara eftir að baka brauðið og því sáraeinfalt og fljótlegt að bjóða upp á nýbakað súrdeigsbrauð.  Mæli með að skella í eitt svona.

Hráefni

 • 160 g súrdeigsgrunnur
 • 300 ml rauðbeðusafi – við stofuhita
 • 300 g brauðhveiti
 • 100 g blanda af haframjöli, chiafræjum, sólblómafræjum og graskersfræjum
 • 1 msk hunang
 • 1 msk maldon salt

 

Verklýsing

 1. Rauðbeðusafa hellt í skál og súrdeigsgrunni bætt við (sjá – súrdeigsgrunnur) ásamt öllu öðru hráefni – blanda saman með sleikju. Plastfilma sett yfir og geymt í kæli í u.þ.b 8 klukkutíma eða yfir nótt
 2. Deigið tekið úr kæli. Hveiti stráð á borðplötu og deigið sett ofan á. Ágætt að leyfa því að jafna sig í u.þ.b. 20 mínútur ef tími er til
 3. Hveiti sigtað yfir deigið og mótaður ferhyrningur með höndunum. Þá er hann lagður saman þrefaldur (sjá mynd fyrir neðan). Endurtekið
 4. Degið er síðan mótað í hring með því að taka í hornin og beina þeim inn að miðju – þá myndast kúla
 5. Ef til er brauðkarfa (sjá mynd fyrir neðan) er hveiti stráð í hana, deigið sett ofan í, hveiti aftur og viskustykki yfir.  Annars er viskustykki lagt í skál og hveiti stráð yfir.  Deigið sett ofan í skálina – hveiti stráð yfir og deigið lokað með viskustykkinu
 6. Látið standa í 6 – 7 klukkutíma við stofuhita.  Ef ekki á að baka brauðið strax er mikilvægt að setja það inn í kæli eftir 4 – 5 klukkutíma til að hægja á hefingunni
 7. Ofninn hitaður í 250°C – ef brauðið er bakað í potti er hann settur í ofninn kaldan
 8. Ef notaður er pottur er deiginu hvolft varlega úr skálinni í pottinn annars er það sett beint á  bökunarpappir
 9. Fallegt að skera í brauðið, lokið sett á pottinn og bakað í 35 – 40 mínútur. Ágætt að taka lokið af síðustu 15 mínúturnar. Ef brauðið er bakað á ofnplötu er gott að fylgjast með brauðinu síðustu 10 mínúturnar svo það brenni ekki
 10. Brauðið látið kólna á grind

Geymsla:  Brauðið er best nýbakað eða daginn eftir.  Það geymist mun lengur en þá er gott að rista það á pönnu eða í brauðrist

 

Ef brauðkarfa er notuð í hefingunni er gott að blanda saman maizenamjöli og vatni og pennsla körfuna að innan (láta þorna) – þá loðir deigið síður við

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*