Laxapaté

Laxapaté

 • Servings: 10-12 manns
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Uppskriftin kemur frá mömmu og hefur margoft verið notuð í matarboðum og veislum.

Forvinna

Réttinn þarf að búa til daginn áður. Þá er auðveldara að skera hann niður í fallegar sneiðar.

Hráefni

Laxapaté

 • 800 g ferskur lax
 • 200 g reyktur lax – skorinn í fingurbita
 • Þunnskornar sneiðar af reyktum laxi – nógu margar til að raða í botn og á hliðar formsins. Hægt að kaupa þunnskornar sneiðar – u.þ.b. 2 – 3 pakkningar
 • 2 msk ólífuolía
 • 2 eggjarauður
 • Safi úr einni sítrónu
 • 125 g rjómaostur – mjúkur
 • 100 g smjör – mjúkt
 • ½ dl ferskur graslaukur – saxaður
 • ½ dl ferskt dill – saxað
 • Salt og hvítur pipar
 • 3 blöð matarlím
 • Ferskt dill til skreytingar

Sósa

 • 1½ – 2 box af sýrðum rjóma
 • Graslaukur

Verklýsing

Laxapaté

 1. Laxinn soðinn – vatn sett í pott (ekki setja of mikið – nóg að vatnið nái rétt yfir fiskinn).  Suðan látin koma upp, fiskurinn lagður í vatnið og soðið í 10 -12 mínútur (varast að láta bullsjóða – þá verður fiskurinn þurr)
 2. Fiskurinn tekinn úr vatninu.  Halda eftir laxasoðinu og sjóða það vel niður – gæti tekið 15 – 20 mínútur á góðum hita en er háð vatnsmagninu. Soðið á að vera u.þ.b. 4 – 5 dl. Þegar það er tilbúið er laxasoðið sigtað
 3. Hreinsa laxinn og setja í matvinnsluvél – passa samt að mauka ekki of mikið
 4. Matarlím sett í kalt vatn í 5 mínútur
 5. Ólífuolía, eggjarauður, sítrónusafi, rjómaostur, smjör, graslaukur, dill, salt og pipar sett út í laxamaukið og hrært saman – smakkað til
 6. Matarlímið tekið upp úr vatninu og leyst upp í laxasoðinu – bætt við hræruna
 7. Plastfilma sett í mótið – gott að nota ílangt kökuform eða brauðform
 8. Skornum laxasneiðum raðað í botn og á hliðar
 9. Helmingnum af maukinu hellt í formið
 10. Fingurþykkum lengjum af reyktum laxi raðað í mótið
 11. Mauki hellt yfir og pakkað inn með laxasneiðunum. Ath. stundum duga ekki laxasneiðarnar og hef ég þá hakkað afganginn af reykta laxinum og stráð yfir
 12. Lokað með plastfilmu og látið standa í kæli yfir nótt

Sósa

 1. Sýrðum rjóma og graslauk hrært saman og sett á disk með hverri sneið

Framreiðsla

 1. Plastfilman tekin af og skorið í sneiðar með beittum hníf.  Gott að vera með heitan hníf, skola hann með heitu vatni og þurrka reglulega af honum
 2. Hægt að bera fram á fati eða leggja eina og eina sneið á forréttadiska og bera fram með sósunni Skreytt með fersku dilli

Geymsla

Geymist í nokkra daga í kæli.

Soðið sigtað og laxahræran útbúin

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*