Hunangsgljáðar rækjur með sesamfræjum
Uppruni
Þessi uppskrift var grafin upp úr kínverskri matreiðslubók fyrir mörgum árum þegar kínverskur matur var oft eldaður á heimilinu. Góður réttur og skemmtilegt að elda en það verður smá bræla á meðan rækjurnar eru djúpsteiktar. Yfirleitt er þessi réttur ekki eldaður einn og sér heldur einn af nokkrum fleirum.
Forvinna
Best er að láta rækjurnar þiðna í ísskáp yfir nótt og láta þær standa í sigti yfir skál.
Hráefni
Deig
- 100 g hveiti
- Salt og pipar
- 1 egg
- 1½ dl vatn
- 500 g rækjur
- 2 msk kornsterkja
- Olía til steikingar
- 1 msk sesamolía
- 2 msk hunang
- 1 msk sesamfræ
Verklýsing
- Deigið útbúið: Hveiti, salt, pipar, egg og vatn hrært vandlega saman. Látið standa lágmark í 10 mínútur
- Gott að þerra rækjurnar á eldhúspappír áður en þeim er velt upp úr kornsterkju
- Olía hituð í djúpsteikingarpotti, wookpönnu eða pönnu. Nota eina flösku af olíu í wookpönnuna
- Rækjum dýft ofan í deigið og síðan settar ofan í heita olíuna – steiktar þar til kominn er fallegur gulur litur á þær
- Rækjurnar teknar upp úr olíunni og dreift á eldhúspappír sem sogar í sig eitthvað af olíunni
- Rækjunum haldið heitum inni í ofni í u.þ.b. 50°C
- Olíunni hellt varlega af pönnunni/pottinum. Ath. Þegar olían er orðin köld er hún síuð í gegnum kaffisíu og sett aftur í flöskuna – tilbúin fyrir næstu djúpsteikingu
- Sesamolía hituð á pönnunni. Hunangi bætt við og hrært varlega. Rækjunum bætt út í og hrært
- Sesamfræjum stráð yfir
Meðlæti
Hrísgrjón og niðurskorið grænmeti.









