Marsipanostakaka með berjamauki
Uppruni
Þessi ostakaka er heimatilbúin og er gerð í einum af leirpottunum mínum. Einnig má nota eldfst mót með loki. Þessi kaka er ekki eins sæt og ostakökur eru oft en mér finnst hún góð og skemmtileg tilbreyting. Bragðið minnir mig á ,,småländska“ ostaköku sem ég fékk oft í Svíþjóð þegar ég var lítil. Hún er aðeins meira fullorðins – bragðið er bara þannig.
Forvinna
Best að baka kökuna daginn áður og láta hana standa í kæli yfir nótt.
Hráefni
Botn
- 70 g smjör
- 260 g Lulukex (einn pakki)
Fylling
- 3 egg
- 1 dós sýrður rjómi
- 400 g rjómaostur – við stofuhita
- ½ dl sykur
- 1½ – 2 dl marsipan – rífinn fínt
Berjamauk – ofan á
- 1½ – 2 dl ber t.d. bláber eða hindber
- ½ dl sykur
- 1 msk sítrónusafi
- 1 msk maizenamjöl (má sleppa en þá verður maukið þynnra)
Verklýsing
Botn
- Kexið mulið og smjörið brætt . Blandað saman og sett í leirpott eða í botninn á eldföstu móti sem tekur rúmlega 1 litra af vökva. Geymt í kæli á meðan fyllingin er útbúin
Fylling
- Ofninn stilltur á 150°C (blástursstilling)
- Rjómaosti, sýrðum rjóma og sykri hrært saman í skál. Einu eggi bætt við í einu og hrært aðeins á milli. Marsipani blandað saman við í lokin með sleikju
- Blöndunni hellt í pottinn og lokið sett á – kakan látin bakast í 1½ klukkustund. Ágætt að athuga hvort þurfi að taka lokið af, þegar nokkrar mínútur eru eftir af bökunartíma, þannig að kakan fái smá lit
- Slökkt á ofninum og kökunni leyft að kólna aðeins þar
- Kakan sett í kæli yfir nótt – eða a.m.k. í 4 klukkustundir
Berjamauk ofan á
- Berin sett í pott ásamt sykri, sítrónusafa og maizenamjöli (má sleppa)
- Látið krauma á meðalhita og hrært í reglulega í nokkrar mínútur þar til maukið þykknar – látið kólna
- Berjamaukið sett yfir ostakökuna
Geymsla: Kakan geymist vel í kæli og er góð í nokkra daga eftir að hún er bökuð.
Meðlæti: Gott að bera fram með þeyttum rjóma en alls ekki nauðsynlegt.
Botninn gerður
Berjamauk í vinnslu