Nachos með kjöti og góðri ostastósu

Nachos með kjöti og góðri ostasósu

 • Servings: 4 - 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi réttur er mjög barnvænn og þægilegur en hann kemur úr mexikósku bókinni sem mér áskotnaðist.  Hann hefur tekið örlitlum breytingum og er mikill kostur að kjötblandan er bara betri ef hún er útbúin daginn áður.  Ég hef ýmist haft heimagert eða keypt nachos með.  Einfaldur réttur sem er vinsæll hjá ungum sem öldnum.

 

Forvinnsla

Kryddblönduna má útbúa löngu áður og gott er að matbúa kjötið daginn áður. Ef notaðar eru heimagerðar tortillur þá er best að djúpsteikja þær stuttu áður en rétturinn er borinn fram.  Ostasósan er búin til samdægurs eða bara rétt áður og hún síðan hituð. Ef hafa á heimagert nachos er fínt að nota uppskriftina Heimagerðar tortillur.  Ef þær eru til í frysti er upplagt að nota þær – taka þær bara út aðeins áður. Eins má nota keyptar tortillur eða kaupa bara tilbúið nachos.

 

Hráefni

 

Tacokryddblanda – 1 dl sem dugar í rúmlega 2 kg af kjöti

 • 1 msk reykt paprikuduft
 • 1 msk anchochili (duft)
 • 1½ tsk kóríander – (duft)
 • ½ – 1 tsk cayenne pipar
 • 1½ msk paprikuduft
 • 1½ msk cumin
 • 1 msk saltflögur
 • 1 msk óreganó – þurrkað
 • ½ tsk rósmarin – þurrkað
 • ½ msk hrásykur – má sleppa

Kjöt

 • 500 g nautahakk
 • 1 gulur laukur – saxaður
 • 1 – 2 hvítlauksrif – söxuð
 • 2 msk olía
 • 1 – 2 msk tacokryddblanda
 • 2 dl niðursoðnir, maukaðir tómatar (má einnig nota ferska – niðurskorna)
 • Bragðbætt með cayenne pipar og anchochilidufti
 • Salt
 • Skraut: Ferskar kryddjurtir eins og kóríander og/eða steinselja

Heimagert nachos

Ostasósa

 • 2 dl mjólk
 • 30 g smjör
 • 200 g cheddarostur – rifinn
 • 1 msk maizenamjöl
 • ½ dl mjólk – fer í hristimálið
 • Ögn af anchochilidufti
 • 1 tsk paprikuduft
 • 1 tsk óreganó (þurrkað)
 • Saltflögur
 • Nýmalaður svartur pipar

Verklýsing

Tacokryddblanda

 1. Öllu blandað saman og sett í lokaða krukku. Geymist í 6 – 8 vikur. Samkvæmt gömlu húsráði á blandan að geymast betur ef nokkur hrísgrjón, vafin í eldhúspappír, eru sett í botninn á krukkunni

Kjötblanda

 1. Laukur og hvítlaukur saxaðir fínt. Olíu hellt á pönnu og laukurinn steiktur á meðalhita í nokkrar mínútur áður en kjötið er sett á pönnuna. Gott að nota trésleif til að ná kjötinu í sundur
 2. Tacokryddblandan (1 – 2 msk) sett út í og hrært í nokkrar mínútur
 3. Tómötum bætt saman við og látið malla aðeins. Smakkað og kryddað með cayenne pipar eða anchochili ef þess þarf. Saltað og piprað eftir smekk
 4. Gott að láta kjötið jafna sig í 5 – 10 mínútur

Heimagert nachos

 1. Tortillur eru skornar niður í sneiðar eða báta
 2. Olía hituð – mér finnst gott að nota djúpa wok pönnu og set ekki mikla olíu. Einnig má nota djúpsteikingarpott en þá þarf yfirleitt meira af olíu
 3. Þegar olían er orðin nægilega heit (hægt að kanna það með því að dýfa hálfum tannstöngli ofan í. Ef kraumar þá er olían orðin nógu heit).  Steikt þar til bitarnir hafa náð smá lit – ágætt að snúa þeim við einu sinni – steikingartíminn er frekar stuttur eða innan við mínútu
 4. Bitarnir teknir upp úr og lagðir á eldhúspappír. Saltflögum stráð yfir.  Athuga að heimagerðar tortillur eru aðeins öðruvísi en keyptar… þær eru þykkari.  Gott að strá grófu salti yfir

 

Ostasósa

 1. 2 dl mjólk og smjör hitað í potti. Ostinum bætt við
 2. ½ dl mjólk sett í hristimál ásamt maizenamjölinu og hrist saman – hellt í sósuna og hrært í jafnóðum
 3. Haldið áfram að hræra í ostasósunni á lágum hita þar til hún hitnar og þykknar
 4. Kryddað með papriku, óreganó og anchochilidufti – saltað og piprað

Samsetning

 1. Nachosflögur settar neðst á fatið. Kjöti dreift yfir og síðan sósunni. Skreytt með fersku kóríander og/eða persilju

 

Tacokryddblanda

Kjöt

Ostasósa í vinnslu

 

Heimagert nachos – í vinnslu

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*