Sítrónuostakaka með ítölskum marengs

Sítrónuostakaka með ítölskum marengs

 • Servings: /Magn: 10 – 12 sneiðar
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Sítróna og marengs er eitt af mínum uppáhalds.  Ég er búin að gera nokkrar tilraunir með þessa köku með misgóðum árangri.  Þrátt fyrir að hún hafi ekki alltaf verið falleg þá er hún bragðgóð og skemmtilegt að nota hana sem eftirrétt.

Forvinna

Ostakakan þarf að fá að kólna þannig að það er upplagt að búa  hana til daginn áður en hún er borin fram.  Hins vegar er best að gera marengsinn samdægurs – ef geyma á kökuna í einhvern tíma er best að hafa hana undir gler/plasthlíf (ekki nota plastfilmu. Hún loðir bara við).

Hráefni

Botn

 • 10 – 11 digestivekex (u.þ.b. 140 g)
 • 60 g smjör – brætt

Fylling

 • 2 – 3 sítrónur (börkur af einni lífrænni sítrónu og 1¼ dl af sítrónusafa)
 • 800 g rjómaostur – við stofuhita
 • 2 dl sykur
 • 2½ dl rjómi
 • 1 egg
 • 3 eggjarauður

Ítalskur marengs

 • 300 g sykur
 • 95 g vatn
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 3 eggjahvítur

Viðbót – má sleppa

 • Niðurskorin jarðarber og/eða bláber eða dreifa sítrónusmjöri yfir kökuna áður en ítalski marengsinn er settu á

Verklýsing

Botn og fylling

 1. Kexið er mulið fínt í matvinnsluvél eða morteli og smjörinu blandað saman við
 2. Kexmulningurinn settur í 23 cm hringlaga smelluform (með smjörpappír í botninum)
 3. Ofninn hitaður í 160°C (undir- og yfirhiti)
 4. Sítrónubörkur rifinn fínt og sítrónusafi pressaður – hrært saman í skál
 5. Rjómasosti og sykri hrært saman.  Rjóma og sítrónusafa/berki bætt við – hrært saman. Ágætt að stöðva hrærivélina og ná öllu af hliðum skálarinnar með sleikju svo að hræran blandist vel saman
 6. Eggi og eggjarauðum hrært saman við – einni í einu
 7. Blöndunni hellt í smelluformið og bakað í 2 klukkustundir og 10 mínútur.  Yfirborðið getur orðið svolítið dökkt og því gott að setja álpappír yfir þegar líða fer á bökunartímann
 8. Kakan látin kólna í smelluforminu (upplagt að láta hana kólna í ofinum yfir nótt ef tími er til) og þá er notaður hnífur til að losa um hliðarnar

 

Ítalskur marengs

 1. Sykur, vatn og sítróna soðið saman (hitinn þarf að ná 120°C – nota hitamæli). Ágætt að byrja að þeyta eggjahvíturnar þegar sykurinn er farinn að sjóða.  Þegar hitanum er náð er sykurbráðinni hellt í mjög mjórri bunu ofan í eggjahvíturnar og þeytt hægt.  Þeytt aðeins hraðar í nokkrar mínútur og svo aftur hægt þar til marengsinn er orðinn kaldur
 2. Ostakakan losuð úr forminu og sett á kökudisk. Ef viðbótin er notuð þá eru ávextir settir ofan á hana.  Marengsinn lagður ofan á og gasbrennari notaður til að fá fallegan lit á marengsinn

 

Geymsla:  Ostakakan er fín daginn eftir en ítalski marengsinn vill svolítið klessast við plastfilmu ef hún er sett ofan á – best að nota kúpul sem kemur hvergi við marengsinn.  Ef ávextir eru hafðir á milli marengs og ostakökunnar geymist hún ekki eins vel.

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*