Marineraðir lambakonfektbitar

Marineraðir lambakonfektbitar

 • Servings: 5 - 6
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi uppskrift er heimatilbúin.  Við höfum stundum keypt marineraða lambakonfektbita en langaði að búa til okkar eigin marineringu.  Hún hefur verið í þróun í nokkurn tíma og erum við ánægð með hana – best ef kjötið er látið liggja í nokkra daga í marineringunni.  Ómarineraðir lambakonfektbitar eru yfirleitt ekki til í kjötborðinu en við höfum fengið þá í Fjarðarkaupum og þurft að biðja um að skera þá sérstaklega (gott að hringja og panta).  Mæli með þessari uppskrift – hún þykir mjög góð.

Hráefni

 • 1-1,2 kg lambakonfekt

Marinering

 • 1 dl olífuolía
 • ¼ – ½ dl púðursykur
 • 1 – 2 msk sriracha hot chilisósa (minna ef ekki er smekkur fyrir smá sterku – sérstaklega ef kjötið er lengi í marineringu)
 • ½ msk rautt curry paste
 • ½ msk grænt curry paste
 • 1 tsk dijon sinnep
 • Rúmlega ¼ tsk malaður blandaður pipar
 • 2 – 4 hvítlauksrif – pressaðir
 • 1 tsk rifinn engifer
 • 2 tsk rauðvínsedik
 • 1 tsk Ítölsk hvítlauksblanda
 • 1 tsk þurrkað oreganó
 • 1 msk Herbs de Provence frá Pottagöldrum
 • 2 msk söxuð fersk salvía eða 2 tsk þurrkuð
 • Handfylli af ferskri persilju/steinselju – söxuð

Verklýsing

 1. Marinering: Öllu hráefni blandað saman í skál
 2. Lambakonfektið sett út í og látið marinerast í a.m.k. nokkrar klukkustundir (best í einn sólarhring – jafnvel í nokkra daga).  Ef kjötið er aðeins í nokkrar klukkustundir í marineringunni er best að láta það standa úti (við stofuhita) en í kæli ef hún nær yfir lengri tíma
 3. Ef kjötið hefur verið geymt í kæli (í marineringunni) er gott að taka það út töluvert áður en það er steikt/grillað og láta það ná stofuhita
 4. Ofninn hitaður í 180°C ef kjötið er steikt á pönnu eða verið er að grilla mikið magn – annars nægir að grilla bitana og bera þá strax fram
 5. Kjötið grillað (steikt á pönnu) á báðum hliðum þar til fallegur litur er kominn á það.  Gott að leggja kjötið í ofnskúffu jafnóðum og setja það inn í ofn í u.þ.b. 3 – 5 mínútur
 6. Ath. Kjötbitarnir þurfa mismikla steikingu þar sem þeir geta verið misþykkir – einnig er smekksatriði hversu rautt kjötið á að vera

Meðlæti:  Lambakonfektið er sérstaklega gott með fersku og góðu kúskúsi eða ofnsteiktum kartöflum og frískandi piparrótarsósu

 

Verklýsing 1 – 2

Konfektbitarnir eftir nokkurra daga marineringu

Konfektbitarnir steiktir á pönnu 

Konfektbitarnir steiktir á pönnu og lagðir í ofnskúffu 

Konfektbitarnir steiktir á grilli

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*