Kransakakan hennar mömmu

Kransakakan hennar mömmu

 • Servings: U.þ.b. 80 - 100 manns
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Þessi uppskrift kemur frá mömmu og hefur kransakakan verið bökuð við hátíðleg tækifæri síðustu 25 árin. Hún hefur hannað hana í ýmsum útfærslum ekki síst með það í huga að þurfa ekki að hafa kransakökumót við höndina. Þessa köku má auðveldlega minnka með því að fækka lengjunum.  Einnig má leika sér að því að snúa henni á hvolf þó að þá sé vissara að hafa hana í lægri kantinum.

Forvinna

Best að baka kransakökuna einum eða tveimur dögum áður en hún er sett saman og ljúka verkinu daginn fyrir veislu.

Ath. Í uppskriftinni er 2 kg af möndlumassa – það verður töluverður afgangur af kransakökudeigi sem hefur verið notað til að gera litlar kökur sem eru notaðar til að hafa til hliðar eða í kringum kökuna.  Auðveldlega má minnka möndlumassan í 1½ kg en þá þarf að minnka sykur og eggjahvítur í samræmi við það.

Hráefni

Kransakaka

 • 2 kg möndlumassi

  Ath. Það er ekki sama hvaða marsipan er notað. Ég hef verið með það sem fæst í Fjarðarkaupum og þeir pakka sjálfir. Athuga að þetta er kransakökumassi (ekki hjúpmarsipan). Hef notað danska Odense marsipanið, með mismunandi árangri, en þar er sykur- og möndlumagnið mismunandi eftir tegundum. Kökurnar hafa lekið og orðið allt öðruvísi nema þegar ég hef notað marsipanið frá þeim með 63% möndlum – þá hefur það gengið glimrandi vel.

 • 750 g strásykur
 • 4 – 5 eggjahvítur

Skreyting

 • Suðusúkkulaði
 • Eggjahvítur
 • Flórsykur
 • Nokkrir dropar kreistir úr sítrónu
 • Skraut – best að nota bita sem gefa stuðning eins og t.d. Macitosh-konfekt

Verklýsing

Kransakaka

 1. Eggjahvítur og strásykur þeytt saman (ekki eins mikið og í marengs). Möndlumassinn hnoðaður saman við þar til deigið er orðið jafnt. Hnoða þannig að hráefnin blandist vel saman en alls ekki of lengi
 2. Deigið sett í skál með plasti og geymt í kæli yfir nótt.  Ef deigið er ekki kalt, þegar það er rúllað út og bakað, er frekar hætta á að lengjurnar springi við bakstur. Því er gott að setja deigið, sem ekki er verið að rúlla út, í kæli í stað þess að hafa það við stofuhita.
 3. Ofninn hitaður í 175° – 180°C (yfir- og undirhiti – ekki blásturstilling)
 4. Deiginu rúllað í lengjur – u.þ.b. 2 cm breiðar.  Lengdirnar er mismunandi – sjá lengdir á mynd fyrir neðan. Upplagt er að rúlla það sem verður eftir af deiginu í lengjur og skera þær niður í litla bita.  Einnig má búa til stafi til að skreyta kökuna með
 5. Bakað í 15 mínútur – mikilvægt að fylgjast vel með svo að ekki brenni. Til þess að forðast það er ráð að hafa aðra ofnskúffu í næstu eða þarnæstu rauf fyrir neðan í ofninum (sjá mynd)
 6.  Ath. Gott ráð til þess að kökurnar springi síður er að spreyja eða pensla yfir þær vatni í ofninum. Þó að lengjurnar líti ekki fullkomlega út við fyrstu sýn er margt hægt að fela þegar skreytt er með glassúrnum

 

Skreyting – glassúr og suðusúkkulaði

 1. Suðusúkkulaði brætt rólega í skál yfir heitu vatnsbaði
 2. Kransakökuendunum dýft ofan í – súkkulaðið látið renna af og lengjurnar lagðar á bökunarpappír – látið harðna
 3. Eggjahvítur og flórsykur – þeytt saman. Fyrst er eggjahvítan aðeins þeytt í smástund og síðan flórsykri bætt saman við
 4. Nokkrir dropar úr sítrónu settir út í
 5. Þegar blandan er orðin létt og hvít er ágætt að setja hana í lítinn plastpoka og loka vel fyrir. Klippa smá af einu horninu og sprauta á hverja lengju fyrir sig um leið og kakan er sett saman (sjá mynd)

 

Samsetning

 1. Fjórar lengstu lengjurnar mynda botninn á kökunni.  Ágætt er að festa við diskinn neðstu lengjurnar með litlu af glassúr – þá verður kakan stöðugri. Tvær lengjur eru svo lagðar samsíða og hinar tvær ofan á þannig að ferningur myndast – sjá mynd.
 2. Þannig er gert koll af kolli en mikilvægt er að setja sælgætismola á milli hér og þar til stuðnings – sérstaklega neðst.  Einnig má nota litlu kransakökubitana til stuðnings neðst
 3. Kakan þarf að standa á svölum stað – þá eru minni líkur á að bitarnir bogni og sígi niður

Teikining af kransakökunni

IMG_3446

Kransakökur í ofninum

IMG_2123

IMG_2120

IMG_2540

Glassúr

IMG_2148

 

Kakan skreytt með glassúr um leið og hún er sett saman

IMG_2536

 

IMG_2537

 


IMG_2538

 

Nota alltaf þennan kransakökumassa. 

img_1600

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*