Frönsk apríkósuterta
Uppruni
Þessa uppskrift fann ég í íslensku blaði fyrir einhverjum árum. Franskt núggat er líka gott að nota með ís eða ýmsum sætum réttum.
Forvinna
Það er mjög sniðugt að búa til franska núggatið nokkrum dögum áður eða þegar maður hefur tíma. Eins er líka hægt að gera botnana nokkrum dögum eða degi áður.
Hráefni
Franskt núggat
- 160 g afhýddar möndlur
- 180 g sykur
Botnar
- 6 eggjahvítur
- 250 g siktaður flórsykur
- ½ (helmingur) af fínmöluðu frönsku núggati
Fylling
- 7-8 dl rjómi
- 20 g sykur
- 180 g apríkósur
- 3 msk Amarettó líkjör
- Grófmalað franskt núggat
Verklýsing
Franskt núggat
- Afhýddar möndlur og sykur hitaðar við miðlungshita á pönnu þar til sykurinn verður gullinbrúnn og hjúpar möndlurnar vel
- Hellið blöndunni á álpappír og látið kólna
- Skiptið núggatinu í tvo hluta og malið helminginn frekar gróft og látið í tvær skálar, malið hinn helminginn frekar fínt. Gott er að mylja núggatið í morteli
Botnar
- Hitið ofninn í 140°C
- Þeytið eggjahvítur þar til þær verða stífar
- Bætið helmingnum af flórsykri út í og þeytið áfram í 2-3 mín. Bætið afganginum af sykrinum saman við með sleikju
- Blandið fínmalaða núggatinu saman við
- Breiðið bökunarpappír á 2 ofnplötur og teiknið 22 cm hring á hvora örk
- Smyrjið innan í hringina með smjöri/olíu, skiptið deiginu á milli þeirra og breiðið úr því
- Bakið í 1 klst., fjarlægið pappírinn og kælið botnana
Fylling og samsetning á köku
- Setjið apríkósur í pott, bætið vatni í svo fljóti yfir og látið suðuna koma upp. Látið standa í u.þ.b. 1 klukkutíma svo apríkósurnar mýkist. Þarf ekki eins lengi með mjúkar apríkósur
- Skerið apríkósurnar í litla bita
- Þeytið rjóma, sykur og líkjör saman og takið frá u.þ.b. 1/3 og bætið helmingnum af grófmalaða núggatinu og 2/3 af apríkósunum saman við
- Leggið botnana saman með þessari núggatrjómablöndu á milli
- Smyrjið afganginum af rjómablöndunni ofan á kökuna og á hliðarnar
- Skreytið með apríkósnum og því sem eftir er af grófmalaða núggatinu